57% vilja Vinstri græn í ríkisstjórn

20.09.2017 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
57% landsmanna vilja að Vinstri græn taki sæti í næstu ríkisstjórn, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Um 14% svarenda sögðust vilja að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndi tveggja flokka ríkisstjórn eftir kosningar.

Ljóst er að ný ríkisstjórn verður mynduð eftir Alþingiskosningarnar í lok næsta mánaðar. Gallup kannaði hvaða stjórnmálaflokka fólk vildi í ríkisstjórn ef kosið væri í dag.

Spurt var, hvaða flokkar, tveir eða fleiri, myndir þú vilja að mynduðu nýja ríkisstjórn?

57% nefndu Vinstri græn í einhverri samsetningu í ríkisstjórn og var flokkurinn langoftast nefndur. 35% nefndu Framsóknarflokkinn, 33% Samfylkinguna, 31% Sjálfstæðisflokkinn, 30% Pírata, 26% vildu Bjarta framtíð í ríkisstjórn í einhverri samsetningu, 19% nefndu Flokk fólksins, þá nefndu einnig 19% Viðreisn og 4% svarenda vildu sjá Dögun í ríkisstjórn. 

Mjög misjafnt var hvaða samsetningar fólk nefndi þegar það var spurt hvaða flokkar það vildi að mynduðu nýja ríkisstjórn. Tiltölulega fáir nefndu hverja samsetningu en þeir flokkar sem oftast voru nefndir saman eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, 14% þeirra sem tóku afstöðu nefndu þá samsetningu.

6% vildu ríkisstjórn Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna, 5% vildu tveggja flokka stjórn Samfylkingar og VG og 4% vildu tveggja flokka stjórn VG og Bjartrar framtíðar. Jafn margir vildu VG og Sjálfstæðisflokk í tveggja flokka ríkisstjórn.

Nokkrar aðrar flokkasamsetningar voru nefndar, sem hver um sig fékk stuðning 3% þriggja prósenta svarenda. Athygli vekur að 56% þeirra sem tóku afstöðu nefndu aðra samsetningu flokka í ríkisstjórn.
 
Könnunin var netkönnun sem var gerð dagana 15 til 19. september. 1.143 voru í úrtakinu og þátttökuhlutfall var rúm 53%.  Valið var handahófskennt úr viðhorfahópi Gallup. 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi