57 sjómenn í Panamaskjölunum kærðir

18.11.2016 - 04:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Skattrannsóknarstjóri hefur rannsakað og kært 57 íslenska sjómenn til héraðssaksóknara fyrir skattalagabrot. Mál þeirra tengjast öll Panamaskjölunum svokölluðu, en allir störfuðu þeir hjá íslenskum útgerðum erlendis, aðallega undan Afríkuströndum.

Fréttatíminn greinir frá þessu. Í umfjöllun blaðsins segir að mál sjómannanna séu meira en helmingur allra skattalagabrota sem tengjast Panamaskjölunum. Þeir hafi ekki greitt tekjuskatt af launum sínum á Íslandi þrátt fyrir að hafa verið búsettir hér.

Í stærstu málunum nema kærð skattaundanskot tugum milljóna króna, samkvæmt heimildum blaðsins. Fram kemur að einhverjir hinna kærðu hafi starfað hjá Sjólaskipum, um aðra er minna vitað. Málatilbúnaðurinn byggist meðal annars á því, að þótt mennirnir hafi skráð lögheimili sitt erlendis, hafi þeir í raun haft heimilisfesti á Íslandi, og því verið skyldugir til að greiða sína skatta hér. 

Eins og fram kom í fréttum RÚV í vikunni hafa alls 108 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar vegna gruns um skattalagabrot sem tengjast hinum svonefndu Panamaskjölum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi