56 prósent yngstu launþeganna í vaktavinnu

07.12.2017 - 11:11
Veitingastaður í Hörpu í Reykjavík.
 Mynd: Helgi Halldórsson - Flickr
Tæp 56 prósent launþega á Íslandi á aldrinum 16 til 24 ára vinnur vaktavinnu, árið 2008 var hlutfallið rúm 37 prósent. Vaktavinna er algeng hér á landi miðað við í öðrum löndum Evrópu. Árið 2016 unnu rúm 26 prósent Íslendinga á vinnumarkaði vaktavinnu sem var níunda hæsta hlutfallið í Evrópu.

Hlutfall þeirra sem vinnur vaktavinnu er 7,6 prósentum hærra hér á landi en meðaltal í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Hlutfall þeirra sem vinnur vaktavinnu í Evrópu er lægst í Frakklandi, 7 prósent. Þar á eftir koma Belgía og Danmörk þar sem um 8 prósent launþega vinnur vaktavinnu. Hlutfallslega flestir vinna vaktavinnu í Króatíu, um 38 prósent.

Vaktavinna hér á landi er algengust hjá yngsta aldurshópnum, 16 til 24 ára. Tæp 56 prósent í þeim aldursflokki vinnur vaktavinnu. Næst algengust er vaktavinna hjá aldurshópnum 25 til 34 ára, tæp 26 prósent. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á hópum á aldursbilinu 35 til 64 ára. Hjá þeim aldurshópum vinnur á bilinu 17,7 til 18,5 prósent vaktavinnu. Hlutfallið er lægst hjá 65 ára og eldri.

Hlutfall launþega í vaktavinnu í yngstu tveimur aldurshópunum hefur hækkað síðan árið 2008. Þá unnu rúm 37 prósent 16 til 24 ára vaktavinnu og tæp 19 prósent 25 til 34 ára.

Ólíklegra er að fólk með háskólamenntun vinni vaktavinnu en fólk með minni menntun. Árið 2016 höfðu 11 prósent 25 ára og eldri launþega í vaktavinnu lokið háskólanámi. Hlutfallið meðal fólks sem hefur lokið framhalds- eða starfsnámi er 27,5 prósent og hefur hækkað úr 19,6 prósentum síðan árið 2008. 21,8 prósent launþega sem aðeins hafa lokið grunnnámi var árið 2016 í vaktavinnu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi