Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

53 hermenn féllu í árás íslamista

02.11.2019 - 01:28
Erlent · Afríka · Hryðjuverk · Malí
epa03550331 A photograph made available by the French Army Communications Audiovisual office (ECPAD) on 22 January 2013 shows a Malian soldier taking part in operation Serval to push back the Islamist rebels, Diabali, Mali, 19 January 2013. Malian troops
Nokkuð róstusamt hefur verið í Malí síðustu misseri og vígamenn gert nokkrar mannskæðar árásir á ári hverju.  Mynd: EPA
53 hermenn og einn óbreyttur borgari féllu í árás hryðjuverkasveita íslamista á herstöð í Malí í dag. Talsmaður Malíhers greindi frá þessu á Twitter. Hryðjuverkamennirnir réðust á bækistöð hersins í Indelimane í Ménakahéraði í austanverðu landinu og kom herinn litlum vörnum við. Í tilkynningu hersins segir að miklar skemmdir hafi einnig verið unnar á mannvirkjum í herstöðinni og að liðsauki hafi verið sendur á vettvang. Ekki kemur fram hvort og þá hve margir úr liði árásarmanna féllu í átökunum.

Aðeins er mánuður síðan vopnaðar sveitir íslamista felldu um 40 hermenn í tveimur árásum nærri landamærunum að Búrkína Fasó í suðri. Blásið var til harðrar sóknar gegn íslamistum í landinu árið 2012, meðal annars með stuðningi og þátttöku Frakka. Þær aðgerðir gengu vel og tókst að bola hryðjuverkasveitunum, sem flestar kenna sig við Al Kaída, frá öllum helstu þéttbýlissvæðum. Svo virðist sem þær séu að ná vopnum sínum á ný. 

Fréttin var uppfærð kl. 01.40 eftir að nýjar upplýsingar bárust um mannfall.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV