Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

52 bankaútibúum lokað frá hruni

15.04.2013 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
52 bankaútibúum hefur verið lokað síðan fyrir hrun og hátt í 2000 manns hefur verið sagt upp. Flestir eru konur og Vestfirðir hafa komið verst út, segir Friðbert Traustason, formaður Sambands Íslenskra bankamanna.

Fjórum af níu starfsmönnum útibús Landsbankans á Hvammstanga hefur verið sagt upp störfum. Eru uppsagnirnar liður í hagræðingum í rekstri Landsbankans. Um 1400 færri starfa nú hjá fjármálafyrirtækjum en fyrir hrun. Milli fjögur og fimm hundruð starfa tímabundið fyrir skilanefndirnar þannig að gera má ráð fyrir að um 2000 manns alls missi vinnuna.

Bankar og útibú voru fyrir hrun um 150 en eru nú um 100. 50 færri bankaútibú eru á landinu. 58 útibú voru á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 en eru nú 32. Þeim hefur fækkað um 26. Utan höfuðborgarsvæðisins voru 99 útibú árið 2007 en eru nú 73 og hefur þeim því fækkað um 26. Ástandið er verst á Vestfjörðum. Samtals voru 157 útibú árið 2007 en eru nú rétt um 100 og hefur þeim því fækkað um 52 síðan rétt fyrir hrun. 

„Þar er orðið afskaplega lítið um bankaþjónustu, hún er í Bolungarvík og á Ísafirði og í Hólmavík. Annars staðar er búið að loka. Það er líka búið að loka víða á Norðurlandinu. Það er helst að Austfirðirnir hafi sloppið sæmilega,“ segir Friðbert. „Í þessum útibúum voru yfir 90% starfandi konur þannig það eru fyrst og fremst konur sem hafa misst vinnuna,“ segir hann.