
Hofið eða hofgarðurinn er um 800 árum eldra en steinhringurinn í Stonehenge sem eru þekktustu menjar frá menningarskeiði yngri steinaldar. Búið er að grafa upp 14 steinaldarhús á hofssvæðinu en það er einungis 10% af minjunum. Mikið af einstökum steinaldarmenjum hefur þegar fundist, m.a. málaðar leirkrúsir og rautt veggskraut málað með sikk-sakk munstri á innveggi húsa. Greint var frá fornminjafundinum í breska ríkissjónvarpinu BBC á nýársdag. Fornleifarnar þykja einstakar meðal steinaldarminja í Vestur-Evrópu og talið að þessi rannsókn kunni að auka til muna þekkingu manna á menningu og trúarbrögðum á steinöld. Mark Edmonds prófessor við háskólann í York, sem stýrir rannsókninni, segir hana hafa mikla alþjóðlega þýðingu. Annars staðar á Orkneyjum er að finna nokkrar af best varðveittu steinaldarmenjum Evrópu, hringformuð steinhlaðin hús í Skara Brae og haugurinn Maeshowe sem eru frá svipuðum tíma og hið nýfundna hof, eða frá því um 3000 fyrir Krist.