Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

50 þúsund fleiri ferðamenn í nóvember

06.12.2016 - 10:33
Mynd með færslu
Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
131.700 ferðamenn komu til landsins í nóvember sem er fimmtíu þúsund fleiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu en fjöldinn er byggður á talningu hennar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ferðamönnum fjölgaði því um 61,4 prósent í nóvember á milli ára.

Þar kemur einnig fram að það sem af er þessu ári séu ferðamenn 38 prósentum fleiri en á sama tímabili í fyrra.  Heildarfjöldi frá áramótum er 1,6 milljón. 

Athygli vekur að í nóvember var helmingur ferðamannanna frá Bandaríkjunum eða Bretlandi. Bretar voru fjölmennastir eða tæp 28 prósent en Bandaríkjamenn 23,2 prósent. 

Í tilkynningu Ferðamálastofu segir einnig að fjöldi ferðamanna til Íslands hafi sexfaldast á síðustu sex árum eða frá árinu 2010.  Fjöldi ferðamanna frá Norður-Ameríku á þessu tímabili hefur ellefufaldast og fjöldi breskra ferðamanna nífaldast. Minnst hefur fjölgun erlendra ferðamanna verið frá nágrönnunum á Norðurlöndunum eða 53,1 prósent.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV