Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

50 listamenn bætast við dagskrá Airwaves

Mynd: EPA / Lusa

50 listamenn bætast við dagskrá Airwaves

24.05.2018 - 15:13

Höfundar

Bandaríska söngkonan Natalie Prass er væntanleg á Iceland Airwaves hátíðina en hún er einn af þeim 20 alþjóðlegum listamönnum sem bættust við dagskrá hátíðarinnar í dag.

Aðrir erlendir listamenn sem voru tilkynntir voru hin breska Nadine Shah, ástralska söngfuglinn Stella Donnelly, rapparann Jimothy Lacoste frá Norður Lundúnum og belgísk/egypski tónlistarlistamaðurinn Tamino. Í íslensku deildinni bættust meðal annars við Ólafur Arnalds, Mr. Silla, Högni, Birnir, Svala Björgvins og kef LAVÍK.

Sindri Ástmannsson, bókari Airwaves, segir að fyrir mörgum sé Airwaves ekki bara tónlistarhátíð í nóvember heldur eitthvað sem er ofarlega í huganum allt árið. „Fyrir mig þegar ég stóð fyrir utan þetta, þá var maður oft að sjá hljómsveitanöfn í tilkynningum sem maður þekkti ekki, en byrjaði þess vegna að hlusta á þær,“ segir Sindri í viðtali við Poppland. „Þannig hef ég kynnst mörgum af mínum uppáhalds tónlistarmönnum.“ Þá nefnir Sindi að fyrir íslenska tónlistarmenn og bransafólk miðist allt árið í raun við Airwaves, útgáfa platna og myndbanda til að mynda, hátíðin sé eins og jólin fyrir bókabransann.

Á hátíðinni í ár mun Ólafur Arnalds frumflytja nýja tónlist. „Já þetta er verkefni sem hann hefur unnið að í nokkur ár og inniheldur hann sjálfan og nokkur sjálfspilandi píanó, þetta verður mjög stórt show og hann er mjög spenntur,“ segir Sindri en í kjölfarið á Airwaves mun Ólafur halda í tónleikaferðalag um heiminn. Þá vekur það eftirtekt að þrjár færeyskar hljómsveitir hafa þegar verið tilkynntar. „Já við höfum átt heilmikið samtal við Færeyingana, þeir eru með mjög skemmtilega hátíð sem heitir G-festival. Við ætlum að vinna náið með þeim, fara út í sumar og velja eitt færeyskt band þaðan til að spila á Airwaves,“ segir Sindri. Undanfarin ár hefur sá háttur verið hafður á að stórar hljómsveitir spili á tónleikum sem þurfi að kaupa miða sérstaklega á. „Við ætlum að breyta því í ár,“ segir Sindri. „Það er bara einn miði á hátíðina, eitt armband sem kemur þér inn á allt.“

Iceland Airwaves hátíðin fer fram 7.-10. nóvember. Alls var yfir 50 listamönnum bætt við dagskrá hátíðarinnar í dag, en hér má sjá allt tónlistarfólkið sem hefur verið bókað fram að þessu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fever Ray og The Voidz á Iceland Airwaves

Tónlist

Fyrsta hollið á Iceland Airwaves tilkynnt

Tónlist

Sena kaupir Iceland Airwaves