Í dag, 28. júní, eru 50 ár frá Stonewall-uppþotunum sem er einn af frægustu atburðunum í sögu hinsegin fólks á heimsvísu og er gjarnan litið á atburðinn sem upphaf réttindabaráttu þeirra. Af þessu tilefni verður dagskrá á vegum Samtakanna '78 sem ber yfirskriftina „Fyrsta gleðigangan voru óeirðir.“
Dagskráin hefst með leiðsögn Yndu Gestsson um sýninguna Út fyrir sviga í Grófarhúsi. Í kjölfarið fræðir Agnes Jónasdóttir sagnfræðingur gesti í húsnæði Samtakanna '78 um baráttu sem hófst aðfaranótt 28. júní 1969 þegar lögreglan réðst inn á barinn The Stonewall í New York, kveikti ljós, slökkti á tónlist og hótaði bargestum sem flestir voru samkynhneigðir menn að sýndu þeir ekki skilríki yrðu þeir handteknir. Hinsegin fólk í Bandaríkjunum var vant slíkri áreitni og ofbeldi en ólíkt því sem áður var mætti lögreglan sögulegri andspyrnu þessa nótt og byltingin hófst.
„Það var svo sem ekki í frásögur færandi að lögreglan kæmi inn á þennan bar, Stonewall var nefnilega rekinn af mafíunni og afskipti lögreglunnar því nokkuð tíð,“ segir Agnes. „Þessa nótt var í fyrsta sinn sem viðskiptavinir Stonewall stóðu uppi í hárinu á lögreglumönnunum og létu ekki bjóða sér eða griðarstaðnum sínum svona meðferð. Sagan segir að kornið sem fyllti mælinn hafi verið ruddaleg handtaka á manneskju sem gjarnan er lýst sem butch lesbíu. Og það held ég að sé kjarni málsins,“ segir Agnes.
Á þessum tíma var ekki tekið út með sældinni að vera hinsegin í Bandaríkjunum. Fólki var mismunað, ofbeldi gegn hinsegin fólki var daglegt brauð, fólk var rekið úr vinnunni og jafnvel fangelsað fyrir grun um samkynhneigð. Mannréttindabrotin urðu jafnvel grófari með árunum þar til hinsegin fólk reis upp og barðist á móti. Réttindabaráttan, sem á köflum var og er enn blóðug barátta víða um heim, hófst þessa nótt.