Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

50 ár frá Stonewall-óeirðunum

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

50 ár frá Stonewall-óeirðunum

28.06.2019 - 14:29

Höfundar

„Dagurinn horfir við mér sem tilefni til að fræðast um sögu okkar. Pride leggur áherslu á „hér og nú-ið“ en á Stonewall-deginum er tími til að líta yfir farinn veg, sjá hversu langt við erum komin og velta því fyrir okkur hvað við eigum eftir,“ segir Agnes Jónasdóttir sagnfræðingur um þennan merkisdag.

Í dag, 28. júní, eru 50 ár frá Stonewall-uppþotunum sem er einn af frægustu atburðunum í sögu hinsegin fólks á heimsvísu og er gjarnan litið á atburðinn sem upphaf réttindabaráttu þeirra. Af þessu tilefni verður dagskrá á vegum Samtakanna '78 sem ber yfirskriftina „Fyrsta gleðigangan voru óeirðir.“

Dagskráin hefst með leiðsögn Yndu Gestsson um sýninguna Út fyrir sviga í Grófarhúsi. Í kjölfarið fræðir Agnes Jónasdóttir sagnfræðingur gesti í húsnæði Samtakanna '78 um baráttu sem hófst aðfaranótt 28. júní 1969 þegar lögreglan réðst inn á barinn The Stonewall í New York, kveikti ljós, slökkti á tónlist og hótaði bargestum sem flestir voru samkynhneigðir menn að sýndu þeir ekki skilríki yrðu þeir handteknir. Hinsegin fólk í Bandaríkjunum var vant slíkri áreitni og ofbeldi en ólíkt því sem áður var mætti lögreglan sögulegri andspyrnu þessa nótt og byltingin hófst.

„Það var svo sem ekki í frásögur færandi að lögreglan kæmi inn á þennan bar, Stonewall var nefnilega rekinn af mafíunni og afskipti lögreglunnar því nokkuð tíð,“ segir Agnes. „Þessa nótt var í fyrsta sinn sem viðskiptavinir Stonewall stóðu uppi í hárinu á lögreglumönnunum og létu ekki bjóða sér eða griðarstaðnum sínum svona meðferð. Sagan segir að kornið sem fyllti mælinn hafi verið ruddaleg handtaka á manneskju sem gjarnan er lýst sem butch lesbíu. Og það held ég að sé kjarni málsins,“ segir Agnes.

Á þessum tíma var ekki tekið út með sældinni að vera hinsegin í Bandaríkjunum. Fólki var mismunað, ofbeldi gegn hinsegin fólki var daglegt brauð, fólk var rekið úr vinnunni og jafnvel fangelsað fyrir grun um samkynhneigð. Mannréttindabrotin urðu jafnvel grófari með árunum þar til hinsegin fólk reis upp og barðist á móti. Réttindabaráttan, sem á köflum var og er enn blóðug barátta víða um heim, hófst þessa nótt.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bargestir eftir óeirðirnar

„Þessi tiltekni dagur hefur því gífurlega mikla merkingu fyrir hinsegin samfélagið sem lítur á Stonewall og eftirmála þess sem upphaf réttindabaráttu eins og hún hefur þróast. Hinsegin fólk og þá sérstaklega jaðarsettustu einstaklingarnir í þeim hópi, fengu sig full satt af endalausu áreiti lögreglunnar,“ segir Agnes. „En lögreglan varð líka í hugum þessa fólks táknmynd fyrir allt stofnanabundið vald sem hafði haldið þeim niðri og ætlast til þess að þau lifðu lífi sínu í felum og í skömm.“

Þrátt fyrir að Stonewall-uppþotin hafi markað kaflaskil í réttindabáráttu hinsegin fólks voru samtökin 78 ekki stofnuð fyrr en tæpum áratug síðar. Óeirðanna hefur þó alltaf verið minnst og dagurinn hefur þýðingu hérlendis og hefur til dæmis verið valinn til að marka áfanga í réttindabaráttunni. Lögin um staðfesta samvist tóku til dæmis gildi 27. júní 1996 og var sá dagur valinn sérstalega í tengslum við Stonewall - en lengi tíðkaðist að minnast þeirra 27. júní. „Hluti af þessum degi fer algjörlega að minnast hinsegin aktívista sem á undan okkur gengu. Þar má til dæmis nefna Marshu P. Johnson og Sylviu Rivera, tvær trans konur sem tóku þátt í óeirðunum sjálfum og svo líka bara til að minnast allra sem tekið hafa slaginn hér á landi,“ útskýrir Agnes.

„Dagurinn horfir við mér sem tilefni til að fræðast um sögu okkar. Pride leggur áherslu á hér og nú-ið en á Stonewall-deginum er tími til að líta yfir farinn veg, sjá hversu langt við erum komin og velta því fyrir okkur hvað við eigum eftir,“ segir hún. Bætt lagaleg og félagsleg staða trans og intersex fólks brennur helst á hinsegin samfélaginu hérlendis í dag, að sögn Agnesar. „Við fengum nýlega ný lög um kynrænt sjálfræði og voru þau góður áfangasigur en ennþá vantar vernd fyrir intersex börn að þau séu ekki sett í óþarfa skurðaðgerðir og einnig þarf að standa vörð um trans fólk sérstaklega þar sem þau verða oft fyrir áreitni úti í samfélaginu.“

Vilji fólk fræðast meira um þennan merkisdag er fyrirlesturinn sem fram fer í Samtökum '78 klukkan 18 í kvöld opinn öllum. „Þar förum við yfir atburðina á Stonewall og fjöllum líka aðeins um hvernig við tölum um fortíðina og hvernig hún nýtist okkur,“ segir Agnes að lokum. Einnig er hægt að hlýða á umfjöllun Veru Illugadóttur í Í ljósi sögunnar um atburðinn í spilaranum hér fyrir ofan.

Viðburðurinn verður í fyrirlestrarformi en einnig gefst tími í spjall og vangaveltur um efnið. Fræðslan verður túlkuð á ensku, spænsku og táknmáli og er haldin í aðgengilegu húsnæði Samtakanna '78. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Andsvar við áhugaleysi um hinsegin myndlist

Hönnun

Tískurisar minnast Stonewall-uppþotanna

Norður Ameríka

Stonewall: Barinn sem hratt af stað byltingu