Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

5 sjálfstæðisráðherrar, 4 Framsóknar

21.05.2013 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn fær fjögur ráðuneyti í nýrri ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn fimm, auk þess sem forseti Alþingis kemur úr röðum Sjálfstæðismanna.

Framsóknarflokkurinn fær forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og fjórða ráðuneytið sem undir heyra sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfismál. Sjálfstæðisflokkur fær innanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og í fimmta ráðuneytinu verða iðnaðar- og orkumál.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins samþykkti tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að flokkurinn færi í ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn. Flokksráðið var einróma í stuðningi sínum við tillögu formannsins. Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar með lófataki skömmu fyrir tíu.

Fundur flokksráðsins kláraðist um fimmtán mínútur yfir níu, þremur stundarfjórðungum eftir að hann hófst. 

Fréttastofa náði tali af þeim Einari K. Guðfinnssyni, oddvita Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, og Kristjáni Þór Júlíussyni, oddvita Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, rétt eftir að fundi lauk. Þeir sögðu báðir að þeim litist mjög vel á þann stjórnarsáttmála sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefði kynnt á flokksráðsfundinum. Í þessu væri fólgin greinileg stefnubreyting frá fyrri ríkisstjórn. Báðir sögðust ekkert vita um hvort þeir yrðu ráðherrar í nýrri ríkisstjórn eða ekki. Einar er annar tveggja þingmanna stjórnarflokkanna nýju með reynslu af störfum í ríkisstjórn, hinn er Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ekki er víst hverjir verða ráðherrar nú utan að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra, yngstur manna í lýðveldissögunni. Hermann Jónasson var þó tæpu ári yngri, þegar hann varð forsætisráðherra árið 1934 en þá var Ísland konungsríki og í lögformlegu sambandi við Danmörku. Getur hafa verið leiddar að því að Bjarni Benediktsson verði fjármálaráðherra.