
Í samantekt breska sturtuverslunarinnar Showers to you yfir fjölda mynda undir mismunandi myllumerkjum á Instagram röðuðust Gullfoss, Skógafoss, Seljalandsfoss, Goðafoss og Dettifoss á lista 20 vinsælustu fossa heims.
Niagara-foss í Kanada hefur verið merktur lang oftast á Instagram eða 3.008.732 sinnum. Niagara-foss er vinsæll áfangastaður nýpússaðra hjóna. Er þar eflaust að þakka hlutverki fossins í fjölda Hollywood-kvikmynda og þátta. Það er til dæmis eftirminnilegt atriðið þegar Jim og Pam flýja eigið brúðkaup í bandarísku grínþáttunum The Office og ganga í það heilaga undir Niagara.
Vinsælasti íslenski fossinn er Gullfoss í fimmta sæti því hægt er að finna 234.512 myndir af honum á Instagram. Skógafoss er þar rétt á eftir með 218.094 myndir í sjötta sæti. Yosemite-foss í samnefndum þjóðgarði í Bandaríkjunum skilur Skógafoss frá Seljalandsfossi sem hefur verið myndaður og merktur 139.668 sinnum á Instagram.
Goðafoss og Dettifoss eru í 13. og 14. sæti listans með minna en 100.000 myndir hvor.
Listinn var tekinn saman 9. október síðastliðinn.
Foss | Land | Hæð (m) | Fjöldi merkja |
---|---|---|---|
Niagara-foss | Kanada | 51 | 3.008.732 |
Iguazú-foss | Argentína | 82 | 343.037 |
Multnomah-foss | Bandaríkin | 189 | 261.020 |
Victoria-foss | Sambía | 108 | 236.117 |
Gullfoss | Ísland | 32 | 234.512 |
Skógafoss | Ísland | 60 | 218.094 |
Yosemite-foss | Bandaríkin | 739 | 170.215 |
Seljalandsfoss | Ísland | 60 | 139.668 |
Havasu-foss | Bandaríkin | 30 | 130.208 |
Bridalveil-foss | Bandaríkin | 188 | 127.020 |
Snoqualmie-foss | Bandaríkin | 82 | 116.083 |
Horseshoe-foss | Kanada | 51 | 76.784 |
Goðafoss | Ísland | 12 | 73.659 |
Dettifoss | Ísland | 44 | 44.195 |
Cascata delle Marmore | Ítalía | 165 | 39.140 |
Rhine-foss | Sviss | 23 | 37.133 |
Shoshone-foss | Bandaríkin | 65 | 30.176 |
Jog-foss | Indland | 253 | 29.330 |
Gocta Waterfall | Perú | 771 | 25.312 |
Angel-foss | Venesúela | 979 | 22.440 |