47% tala í síma undir stýri

07.12.2017 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeim fækkar á milli ára sem segjast nota síma undir stýri. 47 prósent þeirra sem svöruðu könnun MMR segjast hafa talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðustu 12 mánuðum.

79 prósent svarenda sögðust hafa talað í síma undir stýri án handfrjáls búnaðar í sambærilegri könnun MMR í nóvember í fyrra. 33 prósent svarenda á aldrinum 18 til 29 ára segjast hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa eða lesa skilaboð. 16 prósent í þeim aldurshópi hafa notað símann undir stýri til að taka mynd og 17 prósent til að fara á netið. Það er töluverð fækkun síðan í fyrra, þegar 45 prósent í þessum aldurshópi sögðust hafa lesið eða skrifað skilaboð undir stýri, og 29 prósent sögðust hafa notað símann undir stýri til að taka mynd eða fara á netið.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru svarendur með hærri heimilistekjur líklegri til að tala í símann undir stýri bæði með og án handfrjáls búnaðar, samanborið við þá með lægri tekjur. Helmingur svarenda með milljón eða meira í heimilistekjur hafa talað í síma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðastliðnum 12 mánuðum, á meðan tæplega þriðjungur fólks með heimilistekjur undir 250 þúsund gerði slíkt hið sama.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi