450 þúsund innan skilgreinds hættusvæðis

13.01.2020 - 08:41
Taal Volcano continues to spew ash on Monday Jan. 13, 2020, in Tagaytay, Cavite province, south of Manila, Philippines. Red-hot lava gushed out of the Philippine volcano Monday after a sudden eruption of ash and steam that forced villagers to flee en masse and shut down Manila’s international airport, offices and schools. (AP Photo/Aaron Favila)
 Mynd: AP
Óttast er að mikið sprengigos geti hafist í filippeyska eldfjallinu Taal þá og þegar. Hraungos hófst í fjallinu í nótt og hafa átta þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín.

Taal er um sjötíu kílómetra suður af höfuðborginni Manila og er næst virkasta eldfjall Filippseyja. Fyrirtækjum, stofnunum og skólum í námunda við fjallið hefur verið lokað en stjórnvöld óttast að gríðarmikið sprengigos geti hafist þá og þegar. Hættuástandi hefur verið lýst yfir í Batangas-héraði og búist er við að gosið valdi miklum truflunum á samgöngum og atvinnulífi.

Mikil röskun hefur þegar orðið á flugi en ekki hefur verið flogið reglulega frá alþjóðaflugvellinum í Manila síðan að gosið hófst. Til þessa hefur þurft að aflýsa á þriðja hundrað flugferðum. Þá er kauphöllin í Manila lokuð í dag. 

Gosið hófst í gær með látum, þegar mikil gufusprenging varð í fjallinu og grjóthnullungar þeyttust langar leiðir. Öskustrókur fylgdi í kjölfarið en snemma í morgun tilkynnti Eldfjalla- og jarðhræringastofnun Filippseyja að hraungos væri hafið. Fjallið gaus síðast árið 1977.

Sjötíu og fimm jarðskjálftar hafa gengið yfir við Taal-eldfjallið og vara yfirvöld við hugsanlegri skjálftaflóðbylgju. Samhæfingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum segja að rúmlega 450 þúsund manns búi innan skilgreinds hættusvæðis í nágrenni við fjallið.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi