Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

45 milljarðar í vegi og samgöngur á næsta ári

12.09.2019 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Framlög til samgöngumála hækka um 4,5 milljarða frá yfirstandandi ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. 45 milljörðum verður varið til samgöngumála næsta ár. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er með 18 þingmál fyrir næsta þing, allt frá innleiðingu 5G til stefnumótunar um málefni sveitarfélaga. Lög um þjóðskrá eru sögð úrelt og þeim verður breytt.

Ráðuneytið fær 7,5 prósent af heild 

Heildarútgjöld ríkisins samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi 2020 verða rúmlega 1000 milljarðar. Þar af fara ríflega 73,5 milljarðar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem eru um 7,5 prósent af heildinni. Ráðuneytið birtir á vef sínum útlistun á áherslum ráðherra í fjárlagafrumvarpinu. Þar er fyrst tekið fram að framlög til samgöngumála hækka um 11 prósent á milli ára, eða um 4,5 milljarð. Alls á að verja 45 milljörðum í málaflokkinn á næsta ári. Verkefni sem tengjast byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 hækka um tæpar 90 milljónir milli ára og fjarskipti, póstmál, net- og upplýsingaöryggismál fá einnig aukið fjármagn. 

27 milljarðar í vegaframkvæmdir

Af þessum rúmum 45 milljörðum fara 27 milljarðar í framkvæmdir á vegakerfi landsins, rúmir sex í þjónustu á vegakerfinu og 12 til annarra verkefna. Þetta er hækkun í öllum málaflokkum, en þessir 27 milljarðar fara í nýframkvæmdir á vegum og brýnt viðhald. Sex milljarðarnir í vegaþjónustuna fara í aukið öryggi til að bregðast við meiri umferð á vegum, hálkuvarnir, snjómokstur, merkingar og fleira. Önnur verkefni, sem fá 12 milljarða, eru til dæmis framkvæmdir við vita og hafnir, viðhald á flugvöllum og almenningssamgöngur. 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær langmest

Varðandi sveitarfélögin og byggðamálin, þá fær sá málaflokkur 23 og hálfan milljarð. Þar er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga umfangsmestur, með 21 og hálfan milljarð í útgjöld. Hina tvo milljarðana fá byggðamálin, annars vegar byggðaáætlun og síðan sóknaráætlun landshluta. Framlög til þessara málaflokka hækka einnig á milli ára. 

Lög um þjóðskrá úrelt og ekki í takti við samfélagið

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 150. löggjafarþing var birt á vef stjórnarráðsins í gær. Þar eru helstu mál ráðherranna útlistuð og er Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, með 18 mál á sinni könnu. 

Fyrst á lista er frumvarp um skráningu einstaklinga, sem verða ný heildarlög um skráningu fólks sem eiga að koma í stað fyrir lög um þjóðskrá og almannaskráningu. Ráðherra telur núgildandi lög úrelt og úr takti við samfélagið og þær tæknibreytingar sem hafa orðið undanfarna áratugi. Ráðherra ætlar líka að setja lög um 5G og innleiðingu tilskipunar ESB, meðal annars til að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta. Frumvarp um leigubifreiðar felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubíla til að auka frelsi á markaðnum og tryggja betri þjónustu. 

Setja lög um innheimtu veggjalda

Frumvarp til laga um innheimtu veggjalda verður lagt fram til að til að fjármagna veghald tiltekinna vegarkafla þjóðvega með gjaldtöku af umferð. Þá á að auka heimildir einkaaðila til að framkvæma og fjármagna tiltekna kafla á þjóðvegum landsins. Þá verður gert ráð fyrir að framkvæmdaaðilar geti innheimt gjald vegna framkvæmdanna. 

Sigurður Ingi ætlar að leggja fram frumvarp til heildarlaga um skip til að einfalda regluverk og fella brott úrelt ákvæði. Þá ætlar hann að breyta sveitarstjórnarlögum, lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, vatnsveitur sveitarfélaga og loftferðir.  

Lagðar verða fram þrjár viðamiklar þingsályktunartillögur. Stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga 2019 til 2033 felur í sér stefnumörkun í byggðaáætlun og sóknaráætlunum. Samgönguáætlun 2020 til 2024 er aðgerðaráætlun fyrir næstu samgönguáætlun, sem gildir næstu 15 ár. Þær verða lagðar fram í október. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður