Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

41% segjast hlynnt virkjun Hvalár

09.05.2019 - 20:16
Fossinn Rjúkandi í Hvalá. Myndin er tekin í júlí 2017.
Fossinn Rjúkandi í Hvalá. Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
40,9 prósent þjóðarinnar segjast vera hlynnt virkjun Hvalár á ströndum og meirihluti telur virkjunina geta haft góð áhrif á raforkumál, samgöngur, atvinnu og búsetu á Vestfjörðum. 31,4 prósent eru andvígir virkjuninni. Þetta eru niðurstöður könnunar Gallup sem gerð var fyrir Vestfjarðastofu.

Ef marka má könnunina eru ríflega 70 prósent þjóðarinnar jákvæð gagnvart vatnsaflsvirkjunum. Marktækt eru karlar eru frekar jákvæðir heldur en konur og eldra fólk er jákvæðara gagnvart virkjun vatnsafls en aðrir. Íbúar utan höfuðborgarsvæðisins eru jákvæðari en höfuðborgarbúar.

Þegar spurt var um afstöðu til Hvalárvirkjunar eru karlar mun hlynntari virkjuninni en konur. 55 prósent karla segjast vera hlynntir en 25 prósent kvenna. Mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvort það sé með háskólapróf eða ekki. 25 prósent fólks með háskólapróf er hlynnt virkjuninni en um það bil 48 prósent fólks með framhaldsskóla- eða grunnskólapróf vill virkjun.

27,7 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni eru hvorki hlynntir né andvígir því að Hvalá verði virkjuð.

Könnunin var netkönnun, gerð 8.-20. mars 2019. 1.424 manns voru í úrtakinu, 18 ára og eldri, valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfallið var 56,0 prósent.