Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

400 stelpur kynntu sér tækninám

27.04.2017 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjögurhundruð grunnskólastelpur mældu þol kjúklingabeina, bjuggu til rafmótor og spreyttu sig á forritun í Háskólanum í Reykjavík í dag. Markmiðið var að kveikja áhuga þeirra á tæknigreinum í skólanum.

Háskólinn í Reykjavík fylltist af grunnskólastelpum eftir hádegi í dag á sérstaka kynningu sem eingöngu var ætluð stelpum. Þær fóru á milli skólastofa og hlustuðu á stutta fyrirlestra en fengu síðan að spreyta sig á alvöru verkefnum eins og að búa til rafmagnsmótor, forrita og mæla þol kjúklingabeina. Beini var komið fyrir milli tveggja borða og staðsett nákvæmlega. Síðan var fata hengd á beinið og lóðum bætt í fötuna, þegar 39 kíló voru í fötunni brotnaði beinið.

Daníella Grétarsdóttir er í níunda bekk í Lágafellsskóla. „Maður hugsaði ekki um það að kjúklingabein væru virkilega svona sterk þannig að þetta lætur mann hugsa meira um framtíðina og svona.“

Hanna Rut Ólafsdóttir í níundabekk í Lágafellsskóla.  „Ég hef ekkert hugsað út í þetta áður en það er virkilega áhugavert að sjá hversu sterkt beinið getur þolað.“
 
Sigurrós Hávarðardóttir 9. bekk í Vatnsendaskóla. „Við eigum að búa til rafmagnsmótor úr batteríi og seglum.“

Ertu að hugsa um að fara í svona nám þegar þú klárar grunnskólann?  „Ég er ekki alveg komin svo langt ég veit ekkert hvað ég ætla að verða.“

Hvað finnst þér um það þegar sagt er að strákar hafi meiri áhuga á tækni heldur en stelpur?  Ellý Rún Hólm Guðjónsen 9. bekk í Smáraskóla. „Mér finnst það ekkert rétt stundum sko.“
Andrea Sif Ingimarsdóttir 9. bekk í Smáraskóla . „Alla vega í bekknum okkar þá mundi ég segja að stelpurnar hafi meiri áhuga en strákarnir alla vegana.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri í Háskólanum í Reykjavík segir að þetta sé í fjórða sinn sem grunnskólastúlkum er boðið á sérstaka kynningu á tæknigreinum í Háskólanum í Reykjavík. Árið 2011 voru 11% nýnema stelpur. „Núna síðasta haust þá sáum við að hlutfall stelpna í nýnemahópnum í tölvunarfræði var komið upp í 28%.“

„Og það sýnir sig alstaðar, hvort  sem það er í stjórnun fyrirtækja eða bara í tæknifyrirtækjum að blönduð teymi þau skila alltaf bestu vinnunni þannig að við þurfum að fá meiri fjölbreytttileika inn í þennan geira eins og aðra.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV