Nær 47.000 ferðamenn fóru af landi brott í janúar á þessu ári; næstum 40 prósentum fleiri en í sama mánuði í fyrra. Þá voru erlendir ferðamenn 33.000 Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.
Langflestir ferðamannanna voru frá Bretlandi, nær 36 prósent eða tæplega 17 þúsund ferðamenn. Bandaríkjamenn voru nær 15 prósent. Þannig var helmingur ferðamannanna frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þar á eftir komu Þjóðverjar með 5 prósent, Norðmenn og Frakkar með rúm fjögur prósent.
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum mest. 6.545 fleiri komu í janúar í ár en í fyrra. Bandaríkjamönnum fjölgaði um 1.716. Stöðug fjölgun ferðamanna hefur verið til landsins frá því að Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Árleg aukning í janúar hefur að jafnaði veirð 13,7 prósent frá árinu 2003.
Ferðum Íslendinga hefur líka fjölgað en 2.300 fleiri fóru til útlanda í janúar í ár en en í fyrra. Aukningin er 9,9 prósent á milli ára.