40 prósent meta andlega heilsu sína slæma eða lélega

10.01.2020 - 09:11
Mynd: Andrew Neel / Pexels
40 prósent aðspurðra framhaldsskólanema metur andlega heilsu sína slæma eða lélega í könnun sem gerð var fyrir embætti landlæknis. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá embættinu, segir þetta áhyggjuefni.

Dóra segir að embættið fylgist með ákveðnum áhrifaþáttum í spurningalistum sem Gallup gerir og sendir út fyrir embættið reglulega yfir árið. Þessar kannanir hjálpi embættinu að átta sig á breytingum auk þess sem upplýsingarnar nýtist í lýðheilsuvísi embættisins sem birtur er einu sinni á ári. Í Lýðheilsuvísum frá 2019 hafi komið fram niðurstöður úr könnun Rannsókna og greininga sem safnað var árið á undan. Þar voru framhaldsskólanemar meðal annars spurðir hvernig þeir mætu almenna andlega heilsu sína. 

„Það er áhyggjuefni að það eru of margir sem eru að svara að þau meta hana slæma eða lélega. Í okkar tölum núna þá eru 40 prósent sem telja andlega heilsu sína slæma eða lélega. Þannig að það eru ekki nema 60 prósent  sem telja andlega heilsu sína góða. Þannig að það er áhyggjuefni,“ segir Dóra. Rætt var við hana á Morgunvaktinni. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Hún segir að samverustundir með foreldrum hafi reynst vera sá þáttur sem helst bæti andlega líðan unglinga. Eftir hrun hafi fólk unnið minna og lagt meiri áherslu á samveru og minni á efnisleg gæði og unglingum hafi liðið betur. Þetta sé að snúast aftur við síðustu misseri; fólk vinni meira, verji minni tíma með börnum sínum og unglingum líði verr. 

Dóra segir að hún hafi í sínu doktorsverkefni borið saman andlega líðan fólks fyrir og eftir hrun. Hamingja og vellíðan fullorðinna hafi reynst hafa farið niður á við en hamingja unglinga hafi farið upp á við.  

 

Ungir karlmenn mest einmana

Dóra segir að í könnuninni hafi ungir karlmenn reynst finna fyrir mestum einmanaleika. „Eins og í upphafi þegar við fórum að skoða það þá héldum við að það væri mest hjá eldra fólki sem væri kannski dottið út af vinnumarkaði og orðið svolítið einangraðra. En við sáum að það var mest hjá ungum karlmönnum. Þannig að það held ég að sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Afhverju ungir karlmenn einangrist og upplifi sig einmana.“   

Góður svefn grundvallaratriði fyrir andlega líðan

Dóra segir að það sé virkilegt áhyggjuefni að fólk virðist ekki sofa nóg. Tæp 30 prósent fullorðinna fái ekki nægan svefn. Embætti landlæknis vinni að vitundarvakningu um mikilvægi svefns og námsefni fyrir grunn- og framhaldsskólanema.

„Það eru 74 prósent framhaldsskólanema sem ná ekki nægum svefni. Það er alveg gríðarlega mikið. Við höfum verið að ræða skjáinn, orkudrykki og allt mögulegt sem kannski er ástæðan fyrir  þessu, skjánotkun og annað. Alvarlegasti hluturinn þá kannski við þetta er það að það veldur því að þau ná ekki nægum svefni sem er grundvallaratriði fyrir andlega vellíðan.“ 

 

Fréttin var leiðrétt kl. 10:45.  40 prósentin, sem vísað er í fyrst í fréttinni, eiga við um framhaldsskólanema og hefur inngangurinn verið leiðréttur til samræmis auk þess sem hlekk á Lýðheilsuvísi Embættis landlæknis hefur verið bætt við í meginmáli. 20 prósent fullorðinna sögðust í Lýðheilsuvísi 2018 meta andlega heilsu sína lélega eða slæma. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi