Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

40% landsins gætu orðið miðhálendisþjóðgarður

08.11.2017 - 14:04
Mynd með færslu
Þjórsárver Mynd: Skjáskot - RÚV
Nefnd um forsendur fyrir stofnun miðhálendisþjóðgarðs hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra lokaskýrslu sinni. Í skýrslunni eru dregnar saman meginupplýsingar um miðhálendið og mögulegar útfærslur á miðhálendisþjóðgarði eða þjóðgörðum. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir umræðu og ákvarðanatöku varðandi verndun miðhálendisins.

Í skýrslu nefndarinnar eru dregnar saman upplýsingar m.a. um stefnur, náttúru, auðlindir, inniviði og hagsmuni á miðhálendinu. Þá eru dregnar upp fjórar sviðsmyndir að fyrirkomulagi þjóðgarða á miðhálendinu og er þeim ætlað að draga fram mismunandi afmörkun svæðisins, verndun og stjórnskipulag innan þess.

40 prósent landsins undir þjóðgarð

Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir því að miðhálendisþjóðgarður afmarkist af mörkum þjóðlenda á miðhálendinu og friðlýstra svæða, sem eru um 85 prósent af miðhálendinu og 40 prósent af landinu. Þjóðgarðinum yrði skipt upp í sjö svæði. Stjórn þjóðgarðsins yrði með svipuðum hætti og er í Vatnajökulsþjóðgarði, valddreifður með svæðisráðum hvers hluta en stefnumótun, skipulag, leyfisveitingar og stjórnsýsla væri samræmt fyrir allan þjóðgarðinn. Stjórn miðhálendisþjóðgarðsins í heild væri meðal annarra skipuð fulltrúum allra svæðisráða. Sviðsmynd 1 er talin geta tryggt markmið um heildstæða náttúruvernd á miðhálendinu sem og stýringu á ferðamönnum og mótun reglna fyrir allt hálendið í einu. Þá segir að sviðsmyndin feli ekki í sér forsendur til reisa nýjar virkjanir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuney
Sviðsmynd 1 - Miðhálendisþjóðgarður

Jöklaþjóðgarðar

Sviðsmynd 2 felst í fjórum þjóðgörðum sem afmarkast af núverandi friðlýstu svæðum hálendisins auk jöklanna og jaðar-/áhrifasvæða þeirra. Langjökull og Geitland í Langjökulsþjóðgarði, Hofsjökull, Þjórsárver og Guðlaugstungur í Hofsjökulsþjóðgarði, Mýrdals- og Eyjafjallajökull og friðland að Fjallabaki í Mýrdals- og Eyjafjallajökulsþjóðgarði og við Vatnajökulsþjóðgarð myndu bætast Herðubreiðalindir, Kringilsárrani og Lónsöræfi. Stjórnun þjóðgarðarins yrði hjá svæðisráði sveitarfélaganna sem eiga stjórnsýslumörk að eða innan hvers þjóðgarðs. Þá væri stjórnsýslueining starfandi fyrir hvern þjóðgarð. Í skýrslunni kemur fram að sviðsmyndin eykur verndarstig jökla, sem einnig eru flokkaðir sem víðerni, en hefur lítil áhrif á vernd víðerna að öðru leyti. Varðandi útivist þá gæti sviðsmynd fjögurra þjóðgarða haft í för með sér hátt flækjustig og ósamræmi í þjónustu fyrir þá sem hennar vilja njóta. Virkjanir og flutningur á raforku fylgdu þá áfram Rammaáætlun og kerfisáætlun Landsnets.

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfis- og auðlindaráðuney
Sviðsmynd 2 - Jöklaþjóðgarðar

 

Þjóðgarðar á núverandi friðlýstu svæðum

Sviðmynd 3 gerir ráð fyrir því að þjóðgarðar á miðhálendinu séu stofnaðir á núverandi friðlýstu svæðum, sex stöðum, þeir hefðu hver sitt svæðisráð, eins og sviðsmynd 2 og hefðu eigin stjórnsýslueiningu. Friðlýst náttúruverndarsvæði mynda þá nokkurs kona kjarna hvers þjóðgarðs en landsvæði þeirra gætu breyst og þau mætti tengja öðrum verndarsvæðum. Talið er að svipaðar áskoranir fælust í sviðsmynd 2 eins og í sviðsmynd 3, fyrir utan verndun jökla. 

Óbreytt ástand

Sviðsmynd 4 felst í óbreyttri stöðu verndunar og samkvæmt henni eru engar forsendur fyrir heilstæðri verndun miðhálendisins, ekki vernd víðerna, vernd lífríkis, líffræðilega fjölbreytni eða vernd jarðminja og jarðfræðiheilda. 

Í skýrslunni kemur fram að komi til þess að hugmyndir hennar, um frekari verndun á miðhálendi Íslands, nái fram að ganga þá kalli það á að styrkja þurfi þær stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk á þessu sviði.