Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

35 milljónir á ári í fimm ár til rannsókna

Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórnin veitir 35 milljónum króna á ári næstu fimm ár í rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í Reykholti í Borgarfirði í dag. Undir hana skrifa fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofu, sem leiðir rannsóknirnar. Skrifað er undir yfirlýsinguna í tilefni 75 ára afmælis lýðveldis á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra segir verkefnið ekki einungis mikilvægt til þess að efla rannsóknir á þessu sviði heldur sé það einnig í takt við þingsályktunartillögu um að efla íslenskt mál sem samþykkt var á þingi í vor.

„Ég tel að þetta sé grunnurinn að þeirri hagsæld sem við búum við í dag. Vegna þess að við höfum alltaf lagt mikla áherslu á mikilvægi lesturs og að leggja sig fram við það. Þetta er auðvitað liður í að efla sjálfsmynd okkar.“ Segir Lilja.

Snorrastofa er daglegur umsýsluaðili verkefnisins. Verkefninu er stýrt af fagráði sem Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, fer fyrir. Guðrún segir að hægt sé, með DNA rannsóknum, að varpa ljósi á hvar, hvernig og hvenær handritin voru rituð með nákvæmari hætti en áður. Einnig er unnt að greina efnasamsetningu bleksins í handritunum. Það gefur til dæmis betri hugmyndir um alþjóðleg tengsl Íslands sem og hreyfingar innanlands á miðöldum.