Yfirvöld í Kambódíu lögðu í vikunni hald á 3.2 tonn af fílabeini sem falin voru í gámi sem sendur var til landsins frá Mósambík. Yfirmaður hjá kambódíska tollinum staðfesti þetta við AFP-fréttastofuna í dag. Þetta mun vera mesta magn fílabeins sem fundist hefur á einu bretti í Kambódíu. Samtals fundust 1.026 fílstennur í gámnum, sem var á geymslusvæði Pnom Penh-hafnar, faldar innan um marmara.