Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

3,2 tonn af fílabeini falin innan um marmara

16.12.2018 - 07:25
epa04206951 Confiscated ivory is seen at an official event to mark the commencement of the destruction of Hong Kong's 30 tonne stockpile of illegal ivory, in Tsing Yi, Kowloon, Hong Kong, China, 15 May 2014. The phased disposal of Hong Kong's
 Mynd: EPA
Yfirvöld í Kambódíu lögðu í vikunni hald á 3.2 tonn af fílabeini sem falin voru í gámi sem sendur var til landsins frá Mósambík. Yfirmaður hjá kambódíska tollinum staðfesti þetta við AFP-fréttastofuna í dag. Þetta mun vera mesta magn fílabeins sem fundist hefur á einu bretti í Kambódíu. Samtals fundust 1.026 fílstennur í gámnum, sem var á geymslusvæði Pnom Penh-hafnar, faldar innan um marmara.

Samkvæmt Sun Chay, yfirmanni tollstöðvarinnar við höfnina, fannst fílabeinið á fimmtudaginn eftir ábendingu frá bandaríska sendiráðinu. Skoðun leiddi í ljós að gámurinn kom til Kambódíu frá Mósambík á síðasta ári, en af einhverjum ástæðum hefur enginn vitjað hans. Samkvæmt frétt AFP er Kambódía orðin ein helsta miðstöð þeirra sem smygla og versla með ólöglegar dýraafurðir á borð við fílabein, dýr í útrýmingarhættu og afurðir af þeim.

Ekki hefur tekist að finna út úr því, hver eða hverjir það voru, sem guggnuðu á því að sækja þessa stóru fílabeinssendingu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV