Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

310 látin, 40 handteknir á Sri Lanka

23.04.2019 - 04:38
epa07521541 Members of different Non-Governmental organizations hold posters during candle light vigil for victims of the Sri Lanka bombings, in Bangalore, India, 22 April 2019. According to police at least 290 people were killed and more than 400 injured in a coordinated series of blasts during the Easter Sunday service at churches and hotels in Sri Lanka on 21 April 2019.  EPA-EFE/JAGADEESH NV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fórnarlömb hryðjuverkanna á Sri Lanka á páskadag eru nú orðin 310 talsins, þar sem allmörg þeirra sem urðu illa úti í árásunum létust af sárum sínum í nótt. Talsmaður lögreglunnar í Kólombó, höfuðborg Sri Lanka, greindi frá þessu árla þriðjudagsmorguns og sagði um 500 manns hafa særst. Jafnframt sagði hann frá því, að 40 manns væru nú í haldi í tengslum við rannsóknina á árásunum.

Stjórnvöld á Sri Lanka telja þær hafa verið gerðar af liðsmönnum tiltölulega lítt þekktrar öfgahreyfingar íslamista, National Thowheeth Jama'ath, mögulega með aðstoð erlendis frá.

Ríkislögreglustjóri landsins segir að njósnir hafi borist af mögulegum árásum á kirkjur kaþólskra og fleiri skotmörk á páskadag, tíu dögum áður en þær voru gerðar, og hann hafi komið þeim upplýsingum til undirmanna sinna. Svo virðist sem ekkert hafi verið gert með þær upplýsingar og liggja jafnt lögregluyfirvöld sem ríkisstjórnin undir miklu ámæli vegna þessa.

Missaga um vitneskju stjórnvalda

Forsætisráðherra Sri Lanka sagði á mánudag að stjórn hans hafi ekki verið upplýst um ógnina og hét því að ítarleg og óháð rannsókn yrði gerð á því, hvers vegna ekki var brugðist við þessum upplýsingum og hvers vegna þeim var haldið frá ríkisstjórninni. Heilbrigðisráðherra landsins greindi hins vegar frá því í morgun að nokkrir ráðherrar hefðu fengið upplýsingar um hryðjuverkaógnina, sem sagðar eru koma frá bandarískum og indverskum leyniþjónustustofnunum. Þær ku hafa verið nokkuð ítarlegar og meðal annars innihaldið lista yfir mögulega gerendur.  

Fórnarlamba ódæðisverkanna var minnst á Sri Lanka í morgun með þriggja mínútna þögn.