Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

300 tonna safn flutt til Breiðdalsvíkur

11.06.2015 - 15:13
Borkjarnar úr rannsóknarborun á Fjarðarheiði
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands verður flutt frá Akureyri til Breiðdalsvíkur í haust með fimm milljóna króna styrk sem ríkisstjórnin hefur samþykkt. Safnkosturinn vegur yfir 300 tonn og hefur sprengt utan af sér leiguhúsnæði á Akureyri.

Fram kemur á vef Náttúrfræðistofnunar Íslands að hagkvæmt sé að leysa húsnæðisþörf safnsins á þennan hátt. 1 eða 2 störf gætu skapast við að flokka og skrá borkjarnana og gera þá aðgengilega til rannsókna.

„Borkjarnar falla til við jarðboranir og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir. Borkjarnar og borsvarf gera mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar. Það er því mikilvægt að varðveita slík sýni og hafa þau aðgengileg," segir í frétt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Aðgengi að borkjörnunum hafi verið orðið óásættanlegt í leiguhúsnæðinu á Akureyri vegna þrengsla. Stofnunin mun skipuleggja og reka borkjarnasafnið í samvinnu við Breiðdalssetur sem er jarðfræðisetur, einnig kallað Walkerssetur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV