Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

300 frumkvöðlar kynntu viðskiptahugmyndir

01.04.2017 - 19:36
Mynd: RUV / RUV
Rúmlega 300 frumkvöðlar í framhaldsskólum landsins kynntu viðskiptahugmyndir sínar í dag. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavik, segir hugmyndir þeirra aðdáunarverðar og að þær eigi gott líf fram undan.

Vörumessa ungra frumkvöðla var haldin í Smáralind í dag en þar kynntu 63 örfyrirtæki afrakstur námskeiða sem boðið var upp á í framhaldsskólum landsins. Sultur og sælgæti var áberandi og sumir voru með lausn við hvimleiðum vandamálum úr hversdagslífinu. 

Sérstök dómnefnd var að störfum til að velja besta sölubásinn og markaðssetninguna. Nokkrir komast síðan áfram í lokakeppnina og fá að þróa sína viðskiptahugmynd áfram. „Það eru alveg stórkostlegar fyrirtækjahugmyndir sem eru hérna á þessu ári og þetta verður alltaf betra og betra en það er hreint ótrúlegt að sjá hvað framhaldsskólanemar eru duglegir að koma með hugmyndir að fyrirtækjum sem eru fullkomlega frambærilegar og mörg af þessum fyrirtækjum gætu farið af stað í dag og átt gott líf fram undan,“ segir Ari. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV