Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

300 bjargað af Miðjarðarhafi um jólin

27.12.2019 - 06:49
epa08091339 Some of the 39 migrants that arrived ashore rest upon arrival at the Punta Salinas beach in Fuerteventura, Canary Islands, Spain, 26 December 2019. A total of 39 people reached Spanish soil traveling on a small boat.  EPA-EFE/Carlos de Saa
Nokkur úr 39 manna hópi sem náði landi á Fuerteventura á Kanaríeyjum á öðrum degi jóla Mynd: EPA-EFE - EFE
Um 300 flóttamönnum og farandfólki var bjargað af bátskænum af ýmsu tagi undan Spánarströndum um jólin, samkvæmt tilkynningu frá spænsku strandgæslunni. Um 100 manns var bjargað í gær og tvöfalt fleiri á jóladag.

Yfir helmingur fólksins sem bjargað var í gær var á reki í mis gæfulegum bátkoppum og gúmmítuðrum undan Costa Blanca á suðausturströndinni. Sumir voru ekki einu sinni á bát þegar þeim var komið til bjargar, heldur héldu sér á floti á uppblásnum leikföngum. Þá náðu 39 manns landi á suðvesturodda Fuerteventura á Kanaríeyjum í gær.

Á jóladag var um 200 manns bjargað í allmörgum aðgerðum undan ströndum Spánar og Marokkó. Um 120 úr þessum hópi voru tekin um borð í strandgæsluskipin nærri Zaffarineyjum og Alboraneyju, ekki fjarri Marokkóströndum, en hin 80 fundust á reki undan suðausturströnd Spánar, við Gíbraltar og nálægt Kanaríeyjum.

Í tilkynningu frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna frá 20. desember segir að minnst 1.250 karlar, konur og börn hafi drukknað í Miðjarðarhafinu í ár, þegar þau freistuðu þess að komast til Evrópu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV