Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

30 látnir eftir bruna í eldspýtuverksmiðju

21.06.2019 - 10:06
Erlent · Asía · Bruni · Indónesía
Frá Binjai.
 Mynd: Wikicommons
Óttast er að í það minnsta 30, þar á meðal nokkur börn, séu látin eftir að eldur kviknaði í eldspýtuverksmiðju í borginni Binjai á norðurhluta eyjunnar Súmötru í Indónesíu.

Samkvæmt Reuters unnu þrjátíu manns í verksmiðjunni sem var í miðju íbúðarhverfi.

Talsmaður lögreglu á svæðinu, Tatan Dirsan Atmaja, segir ekki hægt að staðfesta á þessari stundu hversu margt fólk lést en búið væri að ráða niðurlögum eldsins. Rannsakendur teldu sig hafa borið kennsl á líkamsleifar þriggja barna og 21 fullorðins en mörg líkanna eru afar illa farin. Engir eftirlifendur hafa fundist.

Birtar voru myndir af verksmiðjunni í indónesísku sjónvarp og er hún gjöreyðilögð. Vitni sem Jakarta Post ræddi við sagðist hafa heyrt háværa sprengingu er hann var á leið til mosku í föstudagsbænir.

Ekki er vitað um orsök brunans að svo stöddu.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV