30 ár frá útgáfu U Can't Touch This

Mynd: Capitol / Capitol

30 ár frá útgáfu U Can't Touch This

14.01.2020 - 12:08

Höfundar

Þrjátíu ár voru frá útgáfu stórsmells rapparans MC Hammer, U can't touch this, í vikunni. Lagið átti þátt í að koma hiphop tónlist inn í meginstrauminn en velgengni þess segir þó einnig dæmisögu af því af hverju sölutölur eru ekki endilega til marks um gæði.

MC Hammer heitir réttu nafni Stanley Kirk Burrell og ólst upp hjá móður sinni og sex systkinum í þriggja herbergja íbúð í austurhluta Oakland í Kaliforníu. Sem barn seldi hann hafnabolta og dansaði fyrir ölmusu á bílastæði hafnaboltaleikvangs Oakland A’s. Þegar hann var 11 ára sá eigandi liðsins hann smella sér í splitt og réð hann sem kylfudreng.

Burrell var hins vegar svo orkumikill og duglegur að eigandinn gerði hann fljótlega að eins konar aðstoðarmanni eða jafnvel uppljóstrara, sem fylgdist með öllu sem fram fór innan leikvangsins sem utan. Þetta vakti athygli leikmannanna. Þeir gáfu Burrell gælunafnið The Hammer, eða Hamarinn, þar sem þeim þótti hann líkur hafnaboltaleikmanninum Hank Aaron, eða „Hammering Hank“ eins og hann var kallaður. Burrell nýtti stundum tækifærið til að koma fram á klúbbum víða um Bandaríkin þegar hann ferðaðist með liðinu og þannig varð hann sér úti um annað gælunafn: MC, sem stóð fyrir „Master of Ceremonies“. Það var aðeins tímaspursmál um hvenær gælunöfnin myndu renna saman. MC Hammer var fæddur. 

Áður en lagið U Can’t Touch This varð að veruleika þurfti MC Hammer að leggja á sig talsverða vinnu og gera nóg af annarri tónlist til að komast í návígi við kortið. Hammer fékk lán frá nokkrum leikmönnum Oakland A’s til að stofna eigin plötuútgáfu, kom fram á litlum klúbbum, var í kristinni rappgrúppu sem kallaði sig Holy Ghost Boys, seldi plötur úr skottinu á bílnum sínum og dansaði hvar og hvenær sem hann gat. Hann gaf út fyrstu breiðskífu sína, Feel My Power, á eigin vegum en vakti fljótt athygli stærri plötuútgefenda. Á endanum gerði hann samning við Capitol Records og gaf plötuna út aftur undir hennar merkjum og nafninu Let’s Get It Started. Hún seldist í yfir tveimur milljónum eintaka.

En þessi velgengni var ekki nóg. Hammer vildi vera öðruvísi, breyta út af rappvenjunni. Hann lét koma upp upptökuveri í rútunni sem hann fór í á milli tónleika og einbeitti sér að því að semja og taka upp nýja og framsæknari plötu sem átti eftir að innihalda sögulegan smell.

Ofurfríkið samplað

Á nýju plötunni, Please Hammer, Don't Hurt'em, hvers titill vísaði í þá venju Hammers að dissa aðra rappara í lögum sínum, samplaði hann marga aðra stóra listamenn svo sem Jackson Five, Marvin Gaye og Prince og svo auðvitað Rick James.

 

 

MC Hammer deilir heiðrinum og tekjunum af U cant touch this með Rick James og Alonzo Miller sem sömdu lagið Superfreak. Þegar Hammer segir að „This Is a Beat You Can't Touch“ eða „þetta er taktur sem þú færð ekki snert“ vísar hann þannig til upphafsriffsins í Superfreak sem hann samplaði. James þurfti reyndar að höfða mál gegn Hammer til að fá tekjurnar af laginu en á endanum sættist Hammer á að bæta nafni hans og Miller við lagið og færa þeim þannig milljónir bandaríkjadollara í stefgjöld.

Lagið var nefnilega, eins og flestir vita, risavaxinn smellur, af stærðargráðu sem rapptónlist hafði ekki séð til þessa. U Can’t Touch This varð fyrsta hiphop-lagið til að ná fyrsta sæti Billboard-listans. Platan Please Hammer Don’t Hurt’em seldist í bílförmum, varð fyrsta hiphop-platan til að seljast í yfir tíu milljón eintaka og er enn í dag ein mest selda rappplata allra tíma. 

Sem er fáránlegt, því flest hin lögin á plötunni eru eiginlega bara hræðileg. Þau náðu sum vinsældum en tíminn hefur leikið þau grátt og þau að mestu fallið í gleymsku.

Himinháar sölutölur eru sum sé ekki endilega til marks um gæði. Þannig er mál með vexti að U Can’t Touch This var ekki gefið út sem smáskífa. Þess vegna, neyddust neytendur til að kaupa plötuna í heild ef þeir vildu hlusta á lagið. Markaðsmaðurinn Hammer frumflutti það í spjallþætti Arsenio Hall og bjó svo til ódauðlegt tónlistarmyndband með orkumiklum danshreyfingum. Hann tiplar einhvern veginn ótt og títt á tánum til hliðar í víðri, hálfgerðri hnébeygju, sem virkar mikið ýktari í buxunum hans, sem eru víðar í klofið en þröngar um kálfana.

Dansinn er oftast kallaður Hammer-dansinn og buxurnar Hammer-buxurnar. Leikstjóri myndbandsins, Rupert Wainwright, klippti dansinn út úr myndbandinu í fyrstu, enda var hann heilar 15 óslitnar sekúndur. Í viðtali við Fast Company minnist Wainwright þess þegar Hammer hringdi í hann eftir að hafa séð fyrstu lokaútgáfuna til að ýta á að dansinn yrði inni. Wainwright var þá í tökum fyrir sjónvarpsmynd og sagði Hammer að setjast bara með klipparanum og gera það sem hann vildi. Þegar Wainwright fékk senda VHS spólu með myndbandinu hugsaði hann með sér að það væri eins gott að hann væri með vinnu því þetta myndband myndi gera út af við hann í bransanum. Og að vissu leyti hafði hann rétt fyrir sér, því myndbandið leiddi hann að mun stærri tækifærum.

Á Grammy-verðlaununum 1991 varð U Can't Touch This fyrsta rapplagið til að vera tilnefnt sem lag ársins. Það tapaði fyrir Another Day in Paradise úr smiðju Phil Colins, þó líklega hefði Sinéad O'Connor átt að fá þau með Nothing Compares To You. Hamarinn fór þó keikur heim, með þrenn verðlaun, fyrir besta R&B lagið, besta sóló-rappflutninginn, og besta „langa“ tónlistarmyndbandið. Það var vel að merkja ekki fyrir myndbandið við U Can't Touch This sem slíkt heldur kvikmynd sem byggð var á plötunni, sem hét einfaldlega Please Hammer, Don’t Hurt’em: The Movie. Sú er vafalaust tímalaus klassík. 

U Can’t Touch This virðist í það minnsta tímalaus klassík. Þó Hammer hafi gefið út helling af tónlist og verið í bæði sjónvarpsþáttum og kvikmyndum síðan, hefur hann aldrei náð nándar sömu hæðum. Lagið er fjörugt og fyndið. Það er kannski minna spilað á svölustu skemmtistöðunum en þess oftar af brúðkaups-plötusnúðum. Það þekkja það næstum allir svo næstum allir geta dansað við það. Það er oft notað í kómískum tilgangi í sjónvarpi og kvikmyndum og þegar einhver segir „Stopp!“ er eiginlegra líklegra en ekki að næsti maður hugsi: „Hammer Time“.