Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

28 bensínstöðvar í 5 km radíus frá Landspítala

Mynd: Robert Linder / RGBStock
Eðlilegt er, út frá hagrænu sjónarmiði, að bensínstöðvum í Reykjavík verði fækkað, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Talning félagsins fyrir tveimur árum leiddi í ljós að í 5 kílómetra radíus frá Landspítala við Hringbraut eru 28 bensínstöðvar.

Borgarráð samþykkti samhljóma í vikunni að stefna að því að fækka bensínstöðvum í borginni um helming fyrir árið 2025. Runólfur segir að þetta sé eðlileg þróun sem hafi átt sér stað í nágrannalöndunum. „Við höfum verið að fjölga bensínstöðvum á sama tíma og aðrir hafa verið að fækka þeim,“ sagði hann í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær. Bensínstöðvarnar í Reykjavíkur eru 46 talsins. Hann bendir á að fyrir tveimur árum hafi FÍB talið bensínstöðvar í 5 kílómetra radíus frá Landspítalanum við Hringbraut komist að því að þær eru 28 talsins. „Þannig að ég held að það sé lítil hætta á því að fólk verði eldsneytislaust.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Runólfur segir að það kosti töluvert að reka bensínstöðvar og að eftir því sem færri viðskiptavinirnir séu því meira kosti. „Út frá hagrænu sjónarmiði er eðlilegt að þeim fækki og þá ættu neytendur að njóta þess í lægra bensínverði.“ Þá telur hann að fákeppnisumhverfi hafi ýtt undir það að bensínstöðvarnar eru svo margar. Innkoman hafi verið drjúg og því hagur að fjölga þeim.