23 aflandsfélög skráð eftir hrun

31.01.2017 - 20:14
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Umfangsmikil aflandsvæðing fyrirhrunsáranna kom mörgum í opna skjöldu þegar Panamaskjölin voru afhjúpuð. Það er þó misskilningur ef einhver heldur að aflandsbraski Íslendinga hafi lokið með fjármálahruninu haustið 2008.

Í kringum hrunið stofnuðu nokkrir af fyrrverandi starfsmönnum íslensku bankanna í Lúxemborg sitt eigið fjármálafyrirtæki þar sem þeir sinntu hlutverkum, sem kallað er í Tíund, fréttabréfi Ríkisskattstjóra, auðlegðarstjóra.

Þetta fyrirtæki tók yfir umsýslu með fjármunum viðskiptavina sem áður voru í viðskiptum við íslensku bankana í Lúxemborg. Þjónustu sem eins og skýrsla starfshópsins sýndi: snerist um að koma viðskiptavinum bankans undan sköttum.

Þetta er fyrirtækið Arena Wealth Management, sem sagt er í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum vera einn af arftökum íslensku bankaútibúanna í Lúxemborg ásamt Banque Havilland, sem stofnaður var á grunni Kaupþings í Lúxemborg.

Á sjötta tug félaga eftir hrun

23 aflandsfélög eru skráð á vegum Arena eftir hrunið 2008. Það nýjasta var skráð árið 2015, samkvæmt Panamaskjölunum. 29 öðrum félögum á vegum Arena var lokað að beiðni viðskiptavina eftir hrunið, sem gefur vísbendingu um að þau hafi verið í notkun eða þjónað einhverjum tilgangi fyrir raunverulega eigendur þeirra. Samtals 52 aflandsfélög eftir hrun.

Hafa verður í huga að Panamaskjölin ná bara til félaga sem stofnuð voru á vegum Mossack Fonseca. Íslenskir bankar nýttu einnig aðrar lögmannsstofur sem störfuðu í sama geira til að útvega viðskiptavinum sínum aflandsfélög. Kaupþing var umsvifamest en nýtti Mossack Fonseca lítið. Glitnir var svo í viðskiptum við enn aðra lögmannsstofuna til að veita sínum viðskiptavinum aflandsþjónustu.

En hvernig fæddist þessi arftaki aflandsþjónustu íslensku bankanna í Lúxemborg? Í grófum dráttum, með tölvupósti. Landsbankinn í Lúxemborg fór í þrot 12. desember 2008. Stuttu síðar kom einföld skipun frá starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg til Mossack Fonseca; færa ætti fjölda félaga frá Landsbankanum til Arena. Afhending félaganna til Arena virðist hafa farið þannig fram að listi með nöfnum félaga og þeirra sem ýmist áttu þau eða höfðu í þeim prókúru var sendur til afgreiðslu hjá Mossack Fonseca.

Mennirnir á bak við Arena Wealth Management voru, samkvæmt gögnum Mossack Fonseca, þeir Ingi Karl Ingólfsson, Arnar Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson, Halldór Þorleifs Stefánsson, Guðjón Sævarsson og Þorsteinn Ólafsson. Allir eiga þeir sameiginlegt að hafa verið starfsmenn íslensku bankanna í Lúxemborg. Þeir störfuðu allir fyrir Landsbankann þar í landi, nema Halldór, sem vann hjá Kaupþingi.

Aðstoða þekkta fjárfesta fyrirhrunsáranna

Meðal viðskiptavina Arena Wealth Management eru hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Fjármunafærslur og fjárfestingar þeirra í og í gegnum aflandsfélög eru lýsandi fyrir þá starsfemi sem Arena virðist aðstoða viðskiptavini sína við. Með aðstoð Arena hafa Ingibjörg og Jón Ásgeir geta notað fjármuni sem með einhverjum hætti enduðu í Panamafélaginu Guru Invest til að fjárfesta í verkefnum í Bretlandi og á Íslandi á undanförnum árum. Í gegnum sama félag, með milligöngu Arena, gátu þau notað aflandsfé til að greiða skuldir íslenskra félaga tengdum Jóni Ásgeiri.

Eftir hrun hefur Arena einnig starfað fyrir aðra þekkta viðskiptamenn fyrirhrunsáranna. Viðskipti Sigurðar Bollasonar með aflandsfélög í nafni kornungra barna sinna voru gerð í gegnum félög sem eru í umsjá Arena. Þrjú börn Sigurðar voru látin vera þátttakendur í viðskiptum hans þegar þau voru á aldrinum eins dags til sex ára gömul en börnin eru skráðir eigendur skúffufélags sem Arena heldur utan um. Þá hafa þau verið látin lána persónulega Panamafélögum sem Arena hefur útvegað. Þorsteinn Ólafsson, starfsmaður og hluthafi í Arena Wealth Management, er sjálfur með prókúru í nokkrum félögum sem tengjast Sigurði og barnalánum hans.

Hafnar því að vera arftaki bankanna

Í skriflegu svari við fyrirspurn Kastljós segist Þorsteinn: „Ég er ósammála því að AWM sé arftaki íslensku bankanna en sammála skýrsluhöfundum um að það hefði verið heppilegra að vinna skýrsluna betur og byggja á raunverulegum upplýsingum.“

Þorsteinn segist ekki hafa skoðun á niðurstöðu skýrslunnar um að að eigendur aflandsfélaga hafi almennt látið stofna þau til þess að komast undan skattgreiðslum á Íslandi. „Ísland og Lúxemborg hafa undirritað samkomulag OECD um aukið gagnsæi sem gerir það að verkum að allar upplýsingar um erlendar eignir og fjármagnstekjur Íslendinga fara nú sjálfkrafa til íslenskra skattyfirvalda.“

Þrátt fyrir að Panamaskjölin gefi til kynna að fjöldi Íslendinga hefur eftir hrun verið meðal viðskiptavina Arena segir Þorsteinn í svari sínu að langstærstur hluti eigna viðskiptavina séu í eigu erlendra aðila. 

Svör Þorsteins við spurningum Kastljóss í heild sinni:

Í Panamaskjölunum kemur fram að AWM hafi tekið við nokkrum fjölda aflandsfélaga af Landsbankanum í Lúxemborg í kjölfar hrunsins. Hvernig kom það til að AWM tók við þessum félögum?
Megin þorri þessara félaga tengdust aðilum sem við aðstoðuðum m.a. við að lýsa kröfum í þrotabú gömlu bankanna og að loka.

Í Panamaskjölunum koma fram upplýsingar um að þú og aðrir starfsmenn AWM hafið prókúru í sumum félögum viðskiptavina ykkar. Hvers vegna er það svo? Er það almennt verklag að þið fáið prókúruumboð?
Nei það er ekki almennt verklag en getur meðal annars tengst því að við höfum aðstoðað viðskiptavini gömlu bankanna við að loka þessum félögum og lýsa kröfum í þrotabú gömlu bankanna.

Í Panamaskjölunum kemur fram að þið hafið aðstoðað viðskiptavini ykkar í viðskiptum sem vekja upp siðferðislegar spurningar, til að mynda viðskipti kornungra barna Sigurðar Bollasonar við aflandsfélög í umsjá AWM. Takið þið einhverja siðferðislega afstöðu til þeirra viðskipta sem þið aðstoðið viðskiptavini ykkar með?
AWM starfar undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg. Evrópsk fjármálafyrirtæki hafa aldrei starfað undir strangari laga- og siðferðisramma en í dag og það munum við gera áfram. Án þess að fjalla um einstaka viðskiptavini þá skal það áréttað að það er alþekkt erlendis að fjölskyldur hugi að erfðamálum t.d. með stofnun sjálfseignastofnana þar sem börn eru gjarnan erfingjar. 

Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum kemur fram að AWM sé á meðal arftaka íslensku bankanna í Lúxemborg þegar kemur að aflandsþjónustu fyrir íslenska aðila. Hvað finnst þér um þá niðurstöðu?
Ég er ósammála því að AWM sé arftaki íslensku bankanna en sammála skýrsluhöfundum um að það hefði verið heppilegra að vinna skýrsluna betur og byggja á raunverulegum upplýsingum.

Niðurstöður skýrslunnar er sú að eigendur aflandsfélaga hafi almennt látið stofna þau til þess að komast undan skattgreiðslum á Íslandi. Hvað finnst þér um þá niðurstöðu?
Ég hef ekki gert sérstaka skoðun á því. Rétt er að það komi fram að viðskiptavinir AWM geta ekki stofnað til viðskipta nema með staðfestingu um að eignir viðskiptavinarins séu gefnar upp til skatts. Ísland og Lúxemborg hafa undirritað samkomulag OECD um aukið gagnsæi sem gerir það að verkum að allar upplýsingar um erlendar eignir og fjármagnstekjur Íslendinga fara nú sjálfkrafa til íslenskra skattyfirvalda.

Af hverju ráðleggur þú viðskiptavinum þínum að stofna eða sýsla með aflandsfélög?
AWM veitir ekki skattaráðgjöf og ráðleggjum við því ekki viðskiptavinum varðandi stofnun félaga.

Hversu stór hluti af ykkar starfsemi felur í sér aflandsviðskipti eða stofnun og umsjá aflandsfélaga fyrir viðskiptavini ykkar?
AWM sinnir fjármálaráðgjöf og eignastýringu undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg. Langstærsti hluti eigna viðskiptavina AWM eru í eigu erlendra aðila. Ég get staðfest að AWM hefur eitt fyrirtæki á lágskattasvæði í eigu íslensks skattaðila í viðskiptum. AWM hefur staðfestingu á að það félag sé gefið upp til skattyfirvalda á Íslandi í samræmi við CFC löggjöfina.

Taka starfsmenn AWM þátt í aflandsviðskiptum viðskipavina ykkar; beint eða óbeint? Til að mynda með því að skrifa undir samninga í umboði viðskiptavina?
Ég vísa til fyrri svara.

 

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi