Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

2,2% eiga nær helming skuldlausra eigna

29.10.2013 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjölskyldur og einstaklingar sem greiddu auðlegðarskatt í fyrra eiga tæp nítján prósent allra eigna landsmanna og nær helming allra skuldlausra eigna.

4.114 fjölskyldur og einstaklingar greiddu auðlegðarskatt og viðbótarauðlegðarskatt í fyrra. Það eru 2,2 prósent fjölskyldna í landinu. Eignir þessara fjölskyldna voru metnar á 723 milljarða króna. Þær eru 18,7 prósent allra eigna sem landsmenn töldu fram á skattskýrslum sínum í fyrra. Þegar búið er að draga skuldir frá eignum standa eftir 676,5 milljarðar króna. Það eru 48,3 prósent allra skuldlausra eigna landsmanna. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Tíundar, tímarits ríkisskattstjóraembættisins.

Þessar rúmlega fjögur þúsund fjölskyldur eiga 69,2 prósent verðbréfa og skuldabréfa, 43,4 prósent innlendra hlutabréfa og 71,6 prósent erlendra hlutabréfa auk 27,3 prósenta af innlendum bankainnistæðum.

Misjafnt hve mikill skattur leggst á fólk
Nær tveir þriðju þeirra sem greiddu auðlegðarskatt greiddu innan við eina milljón króna. Sú skattheimta jafngilti að meðaltali 2,8 prósentum af tekjum fólks. Ellefta hver fjölskylda sem greiddi auðlegðarskatt greiddi fimm milljónir eða meira. Þær fjölskyldur þurftu að meðaltali að nota 32,6 prósent tekna til að greiða auðlegðarskattinn, heildarskattbyrði þeirra nam 55,2 prósentum af heildartekjum.

Nítján fjölskyldur og einstaklingar sem greiddu skattinn höfðu engar tekjur og 85 fjölskyldur höfðu innan við tvær milljónir í árstekjur. Í greininni í Tíund segir að flestir sem greiddu auðlegðarskatt hafi verið þokkalega staddir þó í sumum tilfellum hafi ekki verið mikið eftir af tekjum þegar búið var að greiða skattinn. Stundum hafi fólk því þurft að selja eignir eða taka lán fyrir skattinum.

Með 10,8 milljónir eftir skatta, að meðaltali
Fjölskyldur sem greiddu auðlegðarskatt voru að meðaltali með 10,8 milljónir í tekjur eftir skatta en helmingur með minna en 7,6 milljónir eftir skatta. Tíunda hver fjölskylda hafði meira en 20,1 milljón í tekjur eftir skatta og tíunda hver fjölskylda með innan við 2,6 milljónir.

[email protected]