Viðskiptahugmyndin kviknaði í æðarvarpinu

Mynd: Landinn / RÚV

Viðskiptahugmyndin kviknaði í æðarvarpinu

27.12.2022 - 07:30

Höfundar

Fyrir sex árum síðan kom Ragna Óskarsdóttr í fyrsta skiptið til Borgarfjarðar eystri og féll strax fyrir staðnum. Örfáum mánuðum síðar hafði hún keypt hús í þorpinu og stofnað fyrirtæki.

Það var heimsókn í æðarvarpið á Sævarenda í Loðmundarfirði sem kveikti viðskiptahugmynd hjá Rögnu. „Þar heyrði ég þessa staðreynd að þó svo að nánast allur æðardúnn í heiminum komi frá Íslandi þá flytjum við hann meira og minna út sem hrávöru. Við höfum ekki fullunnið hann að ráði hér heima. Og þetta sat í mér,“ segir Ragna. Hún sá tækifæri í þessu og stofnaði fyrirtækið Íslenskan dún  sem framleiðir nú sængur og kodda sem fara til viðskiptavina um allan heim.

„Dúnninn sem við erum með kemur meira og minna allur af Austurlandi. Við getum stækkað. Það er nóg til af dún á landinu. Fyrirtækið er náttúrulega stofnað til þess að koma þessari fullvinnslu heim og við erum bara rétt að dýfa tánum út í það vatn. Það er mikið verk óunnið,“ segir Ragna. 

Landinn heimsótti Rögnu á Borgarfjörð og fékk að sjá hvernig sæng verður til.