Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Króatía verður hluti af Schengen svæðinu um áramót

09.12.2022 - 13:14
Erlent · Innlent · Schengen
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV/Landinn
Króatía verður hluti af Schengen-svæðinu frá og með næstu áramótum, en Rúmenía og Búlgaría þurfa að bíða. Þetta var niðurstaða fundar innanríkisráðherra Schengen-ríkjanna í Brussel í gær. Ísland er hluti af Schengen, en kemur hins vegar ekki að ákvörðunum um stækkun svæðisins.

Meirihluti ríkja Evrópusambandsins er í Schengen samstarfinu um opin landamæri, auk EFTA-ríkjanna Íslands, Lichtenstein, Noregs og Sviss.

Fyrir fundinum í gær lá fyrir að taka afstöðu um þrjú ríki sem vilja vera með, Króatíu, Búlgaríu og Rúmeníu; framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði mælt með því að öll þrjú yrðu tekin inn; þau uppfylltu kröfur um öryggi landamæra. Austurríki og Holland voru því hins vegar mótfallin og beittu neitunarvaldi gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu.

Austurríkismenn segjast hafa áhyggjur af fjölda flóttafólks sem komi í gegnum þessi ríki til Austurríkis. Því hafna stjórnvöld í þessum ríkjum og segja að innanríkispólitík í Austurríki ráði þessari ákvörðun.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra var á þessum fundi í gær, enda var verið að ræða önnur mál sem tengjast Schengen. Ísland hefur hins vegar ekki atkvæðisrétt þegar kemur að stækkun Schengen; það vald liggur hjá Schengenríkjunum sem eiga aðild að ESB.

Schengen-svæðið var sett á laggirnar árið 1985; Ísland varð hluti af því árið 1996, eftir hafa tekið upp aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. 
 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV