Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hitti Brigitte Macron í forsetahöllinni í París

09.12.2022 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: Forsetaembættið/Una Sighvatsd?
Eliza Reid, forsetafrú átti í dag klukkustundarlangan fund með Brigitte Macron, eiginkonu Emmanuels Macron, forseta Frakklands. Fundurinn fór fram í Élysée höllinni í París, opinberum bústað forsetahjónanna, og snerist að miklu leyti um íslenskar bókmenntir, auk þess sem jafnréttismál og umhverfismál bar einnig á góma. „Þetta var mjög áhugaverður fundur, enda höfum við aldrei hist áður,“ sagði Eliza í samtali við fréttastofu.

„Við ræddum líka það sem mætti kalla sameiginlegan reynsluheim okkar beggja, því við erum báðar giftar þjóðhöfðingjum, og lifum við það að vera fyrst og fremst þekktar sem slíkar,“ sagði Eliza. „Ég er auðvitað stolt af því að vera gift Guðna, en það er vissulega ekki það eina sem skilgreinir mig.“

Eliza hefur verið á ferð um Evrópu undanfarna daga; hún var í gær í Strassbourg. Hún tók þátt í menningardagskrá á vegum Evrópuráðsins, sem Ísland veitir nú forstöðu. „Við opnuðum meðal annars jólabasar hjá Evrópuráðinu og þar tókst okkur að safna fimmtán þúsund evrum, sem notaðar verða til að kaupa rafstöðvar fyrir sjúkrahús í Kharkiv í Úkraínu.“

Á dagskránni var einnig viðburður í bókabúð í Strassbourg, þar sem Eliza hélt stutta tölu um íslenska jólabókaflóðið og íslenskar bókmenntir sem þýddar hafa verið á frönsku. „Með mér voru Einar Kárason og Eric Bouy, þekktur franskur þýðandi sem hefur þýtt mikið af bókum af íslensku yfir á frönsku. Hér í París verður svo viðburður í sendiráði Íslands í kvöld, þar sem áfram verður talað um íslenskar bækur og bókmenntir, enda eru þær mjög vinsælar hér í Frakklandi. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV