Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Deilur á Alþingi gætu tafið eingreiðslu til öryrkja

09.12.2022 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess á Alþingi í dag að annarri umræðu um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra yrði frestað fram á næsta ár. Þeir gagnrýndu stjórnarmeirhlutann fyrir að setja málið á dagskrá í stað þess að afgreiða fyrst eingreiðslu til öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra var afgreitt í ágreiningi úr allsherjar- og menntamálanefnd á þriðjudag. Píratar telja málið sé vanreifað og brjóti mögulega gegn stjórnarskrá. Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjar- og menntamálanefndar vísar þessu á bug segir að málið sé fullunnið og tilbúið til annarrar umræðu.

Frumvarpið var sett á dagskrá þingfundar í dag. Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata lagði fram tillögu við upphaf þingfundar um málið yrði tekið af dagskrá. Tillagan var hins vegar felld. 

„Eina ástæðan fyrir því að setja það á dagskrá er að þjóna því sem er farið að verða þráhyggjukennd hegðun stjórnarliða í þá átt að draga úr réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd. En forseti, það þykir mér ekki vera góð ástæða fyrir því að troða því máli á dagskrá. Ég legg til að það sé tekið út og saltað til nýs árs ef stjórnarliðar eru enn á því á þeim tímapunkti að keyra það áfram af þessu afli,“ sagði Andrés Ingi.

Þingmenn Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins og Viðreisnar gagnrýndu líka að umdeilt mál væri sett á dagskrá á undan svokölluðum dagsetningarmálum eins og til dæmis 60 þúsund króna eingreiðsla til öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega sem á að greiðast út fyrir jól.

„Tryggingastofnun getur ekki afgreitt eingreiðsluna til öryrkja fyrr en við höfum tekið hér fyrir og samþykkt bæði fjáraukalög og frumvarp velferðarnefndar. Það rignir yfir okkur skilaboðum. Ég fékk skilaboð frá konu núna í gær sem er bara að bíða eftir að geta farið að kaupa jólagjafir. Það er raunveruleg neyð hjá fólki, en einhverra hluta vegna þá finnst stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi meira aðkallandi að skerða réttindi útlendinga en að afgreiða þessi mál sem er alger samstaða um hérna í þingsal. Þetta er svo ógeðfellt,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar.

Bryndís Haraldsdóttir ítrekaði þá skoðun sína að útlendingafrumvarpið væri fullreifað.

“Við höfum fjallað um þær með málefnalegum og faglegum hætti og nú er þetta mál einfaldlega fullunnið af hálfu nefndarinnar og fyrir liggur nefndarálit meiri hluta þar sem brugðist er við þeim athugasemdum sem fram hafa komið. Ég átta mig á því að skoðanir eru skiptar en lýðræðislegast er auðvitað að þau skoðanaskipti eigi sér stað í þessum þingsal. Það er orðið löngu tímabært að frumvarp um útlendingalögin fái aðra umræðu hér í þessum þingsal,“ sagði Bryndís.

Þingmenn hafa eytt síðustu þingfundardögum í að ræða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Ólíklegt þykir að þeirri umræðu ljúki á næstu dögum fyrr en sátt hefur náðst á Alþingi um afgreiðslu annarra mála.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV