Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sjötíu plastbútar í maga fýls sem flæktist í veiðarfæri

07.12.2022 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Hátt í sjötíu prósent fýls fugla sem halda sig við Íslandsstrendur hafa innbyrt plast úr sjó. Í einum fugli fundust yfir 70 plastbútar, eða tvö og hálft gramm af plasti.

Þetta kemur fram í evrópskri rannsókn, á vegum OSPAR, sem Náttúrustofa Norðausturlands hefur tekið þátt í síðastliðin fimm ár. Þá hafa fýlar sem flæktust í netum fiskveiðiskipa undan ströndum Íslands, verið sendir til Hollands til rannsóknar. Vísindamenn þar krufðu fugla víða að úr Evrópu, en allsstaðar var raunin sú sama, að í meltingarfærum þeirra fannst mikið af örplasti.

Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir vöktun á fýlunum veita verðmæta innsýn í plastmengun í sjó.

Plast í maga 69% fýla við Íslandsstrendur

„Það kemur í ljós að það er plast í langflestum fýlum í þessari rannsókn á þessum fimm árum, þá hefur verið plast í 69% fýlanna. Þá er ég að meina bara eitthvað plast. Þetta segir okkur það að plastið það fer náttúrulega út um allt“, segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn segir íslensku fuglana þó betur haldna en marga þá sem haldi til nær meginlandi Evrópu.

Meira af neysluplasti en minna af iðnaðarplasti

Frá því vöktunin hófst í Evrópu segir hann ekki skýr merki þess að sé að draga úr eða bæta í plastmengun í sjó. Þegar horft er til plastsins sem fuglarnir éta, er þó greinilega minna af iðnaðarplasti, en þess í stað meira neysluplast.

„Þeir sem að hafa verið í þessu hvað lengst þeir hafa sýnt fram á að þetta iðnaðarplast, því hefur fækkað mikið í fýlum. En neysluplastinu virðist ekki vera að fækka. Þannig það er enþá nóg af því. Það er þá plast sem berst frá okkur neytendum sem er komið út í sjó.“