Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ósætti í þingnefnd eftir afgreiðslu útlendingafrumvarps

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis segir að engum þrýstingi hafi verið beitt þegar útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra var afgreitt úr nefndinni í gær. Málið sé einfaldlega fullunnið.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata gagnrýndi meirihluta nefndarinnar í hádegisfréttum og sagði að ýmsum spurningum hafi ekki verið svarað. Bryndís vísar þessu á bug.

„Málið er einfaldlega fullunnið í nefndinni. Þetta er mál sem hefur komið fimm sinnum til þingsins og fengið mjög mikla umræðu. Ég lít svo á að við höfum í allsherjar- og menntamálanefnd tekist að vinna þetta mál vel. Það er mat okkar í meirihlutanum og ég held jafnvel fleiri nefndarmanna að málið sé fullunnið og tilbúið til úttektar þannig að hér verður dreift nefndaráliti síðar í dag og vonandi náum við að fara í aðra umræðu til að klára málið hið fyrsta,“ segir Bryndís.

Hún telur að meirihluti sé fyrir frumvarpinu á Alþingi og því eigi að vera hægt að klára málið fyrir jól.

„Það var engum spurningum ósvarað. Við höfum sent út fjölda umsagnabeiðna og fengið margar umsagnir. Greinargerðir frá ráðuneytinu og öðrum aðilum. Margir gestir hafa mætt á fund nefndarinnar. Þannig að við teljum að málið sé fullunnið og því engin ástæða til að sitja á því lengur,“ segir Bryndís.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV