Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttavefur Strandafólks lagður niður um áramót

07.12.2022 - 14:45
Mynd með færslu
Hólmavík, stærsti þéttbýlisstaðurinn á Ströndum. Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Strandir.is, frétta- og upplýsingavefur Strandafólks, heyrir brátt sögunni til. Vefurinn var svar við beiðni íbúa um fleiri staðbundnar fréttir og hefur fram að þessu hlotið styrki frá sveitarfélaginu.

Strandir.is lokar um áramótin, er fyrirsögnin sem nú blasir við ef farið er inná vefinn, sem annars hefur lagt áherslu á fréttir af austanverðum Vestfjörðum og upplýsingamiðlun til íbúa.

Silja Ástudóttir hefur ritstýrt vefnum frá því hann fór í loftið 2021, eftir styrk úr byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir. 

Segir vefinn hafa mikið gildi fyrir íbúa og brottflutta

„Við höfum heyrt frá mjög mörgum íbúum frá því við tilkynntum um lokunina. Það eru mjög mörg ósátt og leið yfir að þetta skyldi hafa farið svona. Enda hafa mjög margir gaman að því að fylgast með, líka brottflutt Strandafólk.“

Hún segir það hafa komið sér mjög á óvart að sveitarstjórn skyldi hafa ákveðið að rifta samningi þeirra, sem hljóðaði upp á 200 þúsund krónur á mánuði. Niðurstöðuna segir hún vonbrigði, en vinna og fjármunir hafi farið í að koma vefnum á laggirnar.

Vefur sveitarfélagsins fylli ekki í skarðið

Sveitarfélagið segist ætla að sinna fréttaflutningi og upplýsingamiðlun þess í stað á vef sveitarfélagsins, sem fái um leið andlitslyftingu. 

Silja segir að sá vefur muni ekki fylla í skarðið. Vefurinn hafi haft gott orð á sér á svæðinu, margir sent inn greinar og mikill áhugi verið á hlutlausri umfjöllun um staðbundin mál.

„Ég get ekki séð að það verði fluttar fréttir þar annað en bara sem tengjast sveitarfélaginu beint.“