„Það hefur allt gengið í sögu hjá okkur hingað til. Við erum í æfingabúðum hálftíma frá keppnissvæðinu hér í Melbourne. Við komum hérna 3. desember. Það var reyndar fáranlegt að ferðast hingað, því ég lagði af stað frá Bandaríkjunum 1. desember en lenti hér 3. desember. En svo hefur bara gengið vel að venjast tímamismuninum. Svo er fínt að fá smá sumar og allt er bara að rúlla vel hjá okkur,“ sagði Anton Sveinn.
Markmiðið að komast á topp fimm frá upphafi
„Markmiðin eru heldur betur að negla á þetta. Árið hjá mér hefur verið mjög gott hingað til. Þannig maður hefur byggt upp sjálfstraust og heilt ár af góðum árangri. Grunnurinn hjá mér er góður og ég stefni klárlega á að komast í úrslit í 100 m bringusundinu, sem er reyndar stórt markmið í harðri samkeppni. Í 50 m bringusundinu væri gaman að fara í úrslit, en það er svo mikill sprettur að ég geri mér grein fyrir því að það gæti orðið erfitt. En stóra markmiðið er í 200 m bringusundinu. Mig langar virkilega mikið að gera atlögu að einhverju stóru þar,“ sagði Anton Sveinn og sagðist vilja gera miklu betur en hann gerði í úrslitum sömu greinar á HM og EM í 50 m laug í sumar. Hann endaði í 6. sæti á báðum mótum.