Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Átak að snúa olíuskipinu við

Mynd með færslu
 Mynd: Simone Castrovillari - Simone Castrovillari/SSÍ

Átak að snúa olíuskipinu við

07.12.2022 - 10:02
Sundkappinn Anton Sveinn McKee fer bjartsýnn og stórhuga inn á HM í 25 m laug sem hefst í Melbourne í Ástralíu í næstu viku. Anton hefur átt gott ár hingað til og endað í 6. sæti bæði á HM og EM í 50 m laug. Auk Antons verður Snæfríður Sól Jórunnardóttir meðal keppenda á HM í Ástralíu.

„Það hefur allt gengið í sögu hjá okkur hingað til. Við erum í æfingabúðum hálftíma frá keppnissvæðinu hér í Melbourne. Við komum hérna 3. desember. Það var reyndar fáranlegt að ferðast hingað, því ég lagði af stað frá Bandaríkjunum 1. desember en lenti hér 3. desember. En svo hefur bara gengið vel að venjast tímamismuninum. Svo er fínt að fá smá sumar og allt er bara að rúlla vel hjá okkur,“ sagði Anton Sveinn.

Markmiðið að komast á topp fimm frá upphafi

„Markmiðin eru heldur betur að negla á þetta.  Árið hjá mér hefur verið mjög gott hingað til. Þannig maður hefur byggt upp sjálfstraust og heilt ár af góðum árangri. Grunnurinn hjá mér er góður og ég stefni klárlega á að komast í úrslit í 100 m bringusundinu, sem er reyndar stórt markmið í harðri samkeppni. Í 50 m bringusundinu væri gaman að fara í úrslit, en það er svo mikill sprettur að ég geri mér grein fyrir því að það gæti orðið erfitt. En stóra markmiðið er í 200 m bringusundinu. Mig langar virkilega mikið að gera atlögu að einhverju stóru þar,“ sagði Anton Sveinn og sagðist vilja gera miklu betur en hann gerði í úrslitum sömu greinar á HM og EM í 50 m laug í sumar. Hann endaði í 6. sæti á báðum mótum.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Anton Sveinn McKee er með háleit markmið fyrir HM sem hefst í næstu viku.

„Ef besti tíminn sem ég hef synt á teldi inn á mótið þá væri ég skráður inn með næstbesta tímann. Þessi tími er hins vegar frá 2020 og það eru bara tímar ár aftur tímann sem fylgja manni hér inn. En miðað við hvernig ég hef verið að æfa og hvernig ég hef synt að undanförnu þá langar mig að ná 2:00 mín. eða einhvers staðar þar við. Þá væri ég að klifra inn á listann yfir fimm hröðustu sundmenn heims frá upphafi í greininni. Mig langar allavega að reyna við það. Einbeitingin mín er eiginlega meira á því frekar en einhverju ákveðnu sæti á mótinu,“ sagði Anton, en Íslandsmet hans í 200 m bringusundi í 25 m laug frá 1. nóvember 2020 er 2:01,65 mín.

Vonast til að vera með flugeldasýningu á HM

„Ef við horfum á stóru myndina hjá mér þá var það mikið átak að snúa olíuskipinu við, eða snúa þessari vitleysu við sem árið 2021 var hjá mér. Að hafa getað ýtt því frá mér og byggt mig vel upp í byrjun árs, komist í úrslit á HM í 50 m laug í sumar nýstiginn upp úr Covid. Hafa svo endað líka í 6. sæti á EM nokkrum dögum eftir svæsna matareitrun. Þannig að núna er ég loksins að mæta inn á stórmót á þessu ári heill heilsu, 7, 9, 13. Ég vona svo sannarlega að ekkert gerist núna á þessum síðustu 5-6 dögum fyrir fyrsta sund hjá mér. Því þá er ekkert sem gefur til kynna annað en að það ætti að verða flugeldasýning hjá mér á mótinu,“ sagði Anton Sveinn McKee við RÚV í dag.

HM í 25 m laug hefst í Melbourne í Ástralíu á þriðjudag. Sýnt verður beint frá úrslitahluta keppninnar kl. 8:30 á RÚV 2 dagana 14., 15., 16., 17. og 18. desember. 

epa08047280 Anton Sveinn McKee of Iceland competes in the Men's 200m Breaststroke Final at the LEN European Short Course Swimming Championships 2019 in Glasgow, Scotland, Britain, 5th December 2019.  EPA-EFE/ROBERT PERRY
 Mynd: EPA
Anton Sveinn hefur keppni á HM í næstu viku. Sýnt verður frá úrslithlutum HM í 25 m laug á RÚV 2.