Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

200 ára afmæli tónskáldsins Césars Franck

Mynd með færslu
 Mynd: Guilhem Vellut - Wikimedia Commons

200 ára afmæli tónskáldsins Césars Franck

07.12.2022 - 15:26

Höfundar

Tónskáldið César Franck fæddist 10. desember 1822 og því eru á þessu ári liðin 200 ár frá fæðingu hans. Í tilefni af því verður þátturinn “Á tónsviðinu” fim. 8. des. helgaður tónlist hans og á Óperukvöldi útvarpsins verður flutt ópera Francks „Hulda“.

Franck fæddist í Liège. Borgin tilheyrir nú Belgíu, en var á þessum tíma í Sameinuðu konungdæmi Niðurlanda. Franck er hins vegar oft kallaður franskur tónsmiður þar sem hann bjó lengstaf í Frakklandi og tók sér franskan ríkisborgarararétt.

Orgelleikari og tónsmiður

Franck stundaði fyrst nám við Konunglega tónlistarskólann í Liège, en þegar hann var 13 ára fluttist fjölskyldan til Parísar og Franck stundaði nám við Tónlistarháskólann þar í fjögur ár. 1847 varð hann aðstoðar-organisti við Notre-Dame-de-Lorette-kirkjuna í París, fimm árum síðar varð hann organisti við kirkju í gamla Marais-hverfinu í París og 1858 varð hann organisti við Sainte Clotilde-kirkjuna í 7. hverfi borgarinnar, en þeirri stöðu hélt hann til dauðadags. Frá 1872 var hann kennari við Tónlistarháskólann í París og voru ýmis þekkt tónskáld meðal nemenda hans. Franck hafði mikil áhrif á orgelleik, bæði sem flytjandi og með orgeltónverkum sínum. Hann samdi tónsmíðar af ýmsum gerðum, en verkin frá síðasta áratug ævi hans, 1880-90, þykja langbest allra tónsmíða hans, svo sem fiðlusónata í A-dúr, sinfónía í d-moll og þrír kóralar fyrir orgel. Síðastnefnda verkið lauk Franck við á banabeði árið 1890.

Hið vinsæla „Panis angelicus“

Þar sem Franck var kirkjuorganisti var eðlilegt að hann semdi trúartónlist og má þar nefna messu fyrir þrjár raddir sem hann samdi 1860. Messan var reyndar ekki gefin út fyrr en árið 1872 og þá hafði Franck bætt inn í hana kafla sem varð frægari en nokkuð annað sem hann samdi. Þetta var kaflinn „Panis angelicus“ sem oft heyrist sunginn einn og sér og er eitt af vinsælustu verkunum í heimi sígildrar tónlistar.

Óperan „Hulda“ og tengsl hennar við Ísland

César Franck samdi óperuna „Huldu“ á árunum 1879-1885. Óperan var samin við texta eftir Charles Grandmougin sem byggður var á leikritinu „Halta-Hulda“ eftir norska skáldið Bjørnstjerne Bjørnson. Leikritið gerist í Noregi á 13. öld og kemur Ísland jafnvel nokkuð við sögu þar sem aðalpersónan, Hulda, á að vera íslensk að uppruna. Í upphafi óperunnar ryðjast höfðinginn Áslákur og synir hans vopnaðir inn á æskuheimili Huldu, myrða foreldra hennar og bræður og hafa Huldu á brott með sér. Þar sem Hulda er falleg girnast synir Ásláks hana allir og ákveðið er að hún giftist elsta syninum, Guðleiki. En Hulda hugsar ekki um annað en að koma fram hefndum fyrir morðið á fjölskyldu sinni. Þegar hún verður ástfangin af Eyjólfi, hirðmanni konungs, sér hún í honum hetju sem muni frelsa hana frá fjölskyldu Ásláks og framkvæma hefndina. Eyjólfur endurgeldur ást Huldu og vegur Guðleik sama dag og Hulda er neydd til að giftast honum. Síðar kemur hins vegar í ljós að Eyjólfur hefur ekki gleymt Svanhildi, fyrrverandi unnustu sinni, og þegar hann svíkur Huldu vofir hefndin einnig yfir honum.

Fyrst flutt í heild 2019

Óperan var frumflutt að hluta til í Monte Carlo árið 1894, fjórum árum eftir andlát höfundarins. Það var fyrst árið 2019 sem hún var flutt í heild í upprunalegri gerð. Hljóðritunin sem flutt verður á Óperukvöldi útvarps var gerð á tónleikum í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli tónskáldsins í Fílharmóníuhöllinni í Liège í Belgíu 15. maí á þessu ári.

Flytjendur óperunnar „Huldu“

Hulda: Jennifer Holloway.

Eyjólfur: Edgaras Montvidas.

Guðrún: Véronique Gens.

Svanhildur: Judith van Wanroij.

Guðleikur: Boris Pinkhasovich.

Áslákur: Matthieu Lécroiart.

Hallgerður: Marie Gautrot.

Þórdís: Ludivine Gombert.

Móðir Huldu: Marie Karall.
Árni: Matthieu Toulouse.

Þrándur: Guilhem Worms.

Eiríkur: Artavazd Sargsyan.

Einar: Sébastien Droy.

Gunnar: François Rougier.

Namur-kammerkórinn og Konunglega fílharmóníusveitin í Liège;

Gergely Madaras stjórnar.  

Þátturinn „Á tónsviðinu“ er á dagskrá fim. 8. des. kl. 14.03 og Óperukvöld útvarpsins að kvöldi sama dags kl. 19.00.