Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verkföll á verkföll ofan í Bretlandi

06.12.2022 - 18:20
Mynd: EPA-EFE/TOLGA AKMEN / EPA-EFE/TOLGA AKMEN
Hrina verkfalla er hafin í Bretlandi. Útlit er fyrir að hún standi fram yfir áramót. Fólk krefst launahækkana til að mæta síhækkandi verðlagi á nauðsynjavörum, svo ekki sé minnst á rafmagn og hita. Vinnustöðvun lestarstjóra veldur fólki mestum áhyggjum.

Starfsfólk Shelter, hjálparsamtaka fyrir heimilislausa í höfuðborginni Lundúnum og víðar í Bretlandi, lagði niður vinnu í gær, á sjöunda hundrað manns. Hópurinn kemur ekki til starfa aftur fyrr en 16. desember. Sharon Graham, framkvæmdastjóri Unite, stéttarfélags starfsfólksins, segir að stjórnendur Shelter hafi boðið þriggja prósenta launahækkun. Það sé allt of lítið miðað við verðbólgu undanfarinna mánaða. Starfsfólkið geti ekki lengur staðið undir húsaleigunni og eigi á hættu að lenda á götunni, rétt eins og skjólstæðingar þess.

Notar yfirdrátt í bankanum

Starfsstúlka Shelter segist í viðtali við AFP fréttastofuna hafa þurft að nota yfirdrátt í bankanum til að standa straum af húshitunarkostnaðinum. Hún sé einstæð móðir og fái í magann í hvert sinn sem hún þarf að borga fyrir skólaferðalög barnsins síns. Það minnsta sem hjálparsamtökin geti gert sé að greiða starfsfólkinu mannsæmandi laun.

Sharon Graham segir skelfilegt að hugsa til þess að starfsfólk Shelter eigi á hættu að missa húsnæðið. Samtökin eigi nóga peninga til að hækka launin sómasamlega en stjórnendur þeirra hafi ákveðið að gera það ekki.

Heilbrigðisstarfsfólk leggur niður störf

Strætisvagnastjórar og starfsfólk bresku póstþjónustunnar hafa þegar lagt niður störf. Hjúkrunarfræðingar samþykktu í síðasta mánuði að boða til verkfalls í fyrsta sinn í rúmlega hundrað ára sögu samtaka þeirra. Þeir hyggjast fara í verkfall tvisvar sinnum í mánuðinum.

Yfir tíu þúsund sjúkraflutningamenn og bráðaliðar ætla einnig að fara í verkfall. Tilkynnt var í dag að þeir ætluðu að leggja niður störf 21. og 28. desember. Þeir hafa fengið tilboð um fjögurra prósenta launahækkun. Stéttarfélag þeirra segir að það sé í raun tilboð um verulega launalækkun þegar tillit sé tekið til þess að verðbólgan í Bretlandi fór yfir ellefu prósent í október. Bráðaliði í Lundúnum sagði í viðtali við BBC að ástandið væri óviðunandi. Auk þess að launin væru allt of lág væri vinnuálagið mikið. Fólk færi þreytt í vinnuna og kæmi dauðþreytt heim, en ætti ekki annan kost en að brosa í erfiðleikunum.

Kvíða verkfalli járnbrautarstarfsfólks

Fleiri stéttir hafa boðað verkföll, þeirra á meðal kennarar, hafnarstarfsmenn og lögfræðingar í þjónustu hins opinbera. Mestan óhug hefur þó sett að Bretum vegna þess að lestarstjórar og starfsfólk járnbrautanna hyggst leggja nokkrum sinnum niður vinnu er líða fer að jólum og einnig frá aðfangadegi til þriðja í jólum. Það þýðir að ferðalög yfir hátíðirnar eru í uppnámi og raunar einnig jólahald hundraða þúsunda um allt Bretland.

RMT, stéttarfélag starfsfólks í samgöngugeiranum, ætlar ekki að láta þar við sitja. Tveggja sólarhringa verkföll hafa verið boðuð 13. og 14. desember. Aftur 16. og 17. og loks í tvisvar sinnum tvo sólarhringa í fyrstu viku eftir áramót. Nadhim Zahawi, formaður Íhaldsflokksins og ráðherra í ríkisstjórn Rishis Sunaks, segir að sér þyki afar ógeðfellt að RMT, öflugasta stéttarfélag Bretlands, ætli að eyðileggja jólin fyrir fjölda fólks.

Jólin tekin í gíslingu

Gert er ráð fyrir að um það bil fjörutíu þúsund starfsmenn Bresku járnbrautanna og lestarfélaganna taki þátt í vinnustöðvuninni. BBC hefur eftir Mick Lynch, framkvæmdastjóra stéttarfélagsins að það sé vissulega leiðinlegt að aðgerðirnar eigi eftir að valda fólki erfiðleikum. Sökin liggi þó alfarið hjá stjórnvöldum sem neiti að koma til móts við kröfur félagsins um viðunandi kaup og kjör.

Breska stjórnin segist einfaldlega ekki hafa efni á að semja við stéttarfélög opinberra starfsmanna um launahækkanirnar sem farið er fram á. Nick Gibb, ráðherra skólamála, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að félögum í RMT hefði verið boðin átta prósenta launahækkun næstu tvö ár. Tilboðinu hefði verið hafnað án þess að það væri einu sinni borið undir félagsmenn. „Útilokað er að fallast á kröfuna um nítján prósenta launahækkun hjá hinu opinbera og einnig í einkageiranum“ sagði Nick Gibb. Með boðuðum aðgerðum hafi RMT í raun og veru tekið jólin í gíslingu.