Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úkraínumenn gerðu drónaárás á tvo rússneska flugvelli

epa10345127 Ukrainian servicemen pictured near the frontline town of Bakhmut, in Donetsk region, Ukraine, 02 December 2022. Bakhmut, has been a place of fierce fighting between the Ukrainian and Russian troops with a large number of casualties. Russian troops entered Ukraine on 24 February 2022 starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úkraínumenn gerðu í gær atlögur með árásardrónum að tveimur herflugvöllum í Rússlandi og grönduðu að minnst tveimur flugvélum. Nokkrar til viðbótar skemmdust verulega og Rússar segja mannfall hafa orðið.

The New York Times greinir frá þessu og vitnar í úkraínskan embættismann og rússneska varnarmálaráðuneytið máli sínu til stuðnings. Flugvellirnir báðir, Engels og Ryazan, eru nokkur hundruð kílómetra frá landamærum ríkjanna en drónarnir lögðu upp frá Úkraínu.

Síðarnefndi völlurinn er ekki víðsfjarri Moskvu. Embættismaðurinn, sem óskar nafnleyndar, segir að minnsta kosti aðra árásina hafa verið gerða með fulltingi sérsveitarmanna nærri flugstöðinni sem vísuðu drónunum leið að skotmarkinu.

Skömmu eftir árásirnar létu Rússar skæðadrífu skotflauga rigna yfir Úkraínu en sérfræðingar segja að með þessu hafi átökin færst á annað stig, einkum í ljósi þess að Úkraínumenn hafi gert árásir á Rússland úr töluverðum fjarska.

Þrír hermenn sagðir látnir 

Rússar segjast hafa skotið niður drónana, sem þeir segja frá Sovéttímanum, en brak úr þeim hafi skemmt tvær flugvélar lítillega í Ryazan, valdið bana þriggja hermanna og sært fjóra til viðbótar.

Úkraínskir embættismenn segja Engels-herstöðina miðstöð umfangsmikilla eldflaugaárása á Úkraínu sem hafa valdið tjóni á orkuinnviðum landsins. Myndskeið úr eftirlitsmyndavél sýnir mikinn eldhnött stíga upp frá stöðinni.

Úkraínumenn hafa ekki opinberlega viðurkennt að standa að baki árásunum. Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Zelenskys Úkraínuforseta, gaf þó ýmislegt í skyn líkt og úkraínskir embættismenn hafa gert eftir óútskýrðar sprengingar í Rússlandi.