Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lífsgæðakapphlaupið trompar ungmennafélagsandann

06.12.2022 - 19:31
Mynd: Bjarni Rúnars / RÚV
Halda utan um langstökkskeppni drengja, kaupa inn fyrir sjoppuna á körfuboltamóti, selja varning fyrir björgunarsveitina, taka sæti í stjórn skátafélagsins eða skúra gólfið eftir árshátíð í íþróttahúsinu í bænum. Fjöldi fólks tekur þátt í sjálfboðastarfi af ýmsum toga án þess að þiggja krónu fyrir.

 

Framtak sjálfboðaliðans er mikilvægara en við gerum okkur alltaf grein fyrir og samkeppni um tíma og athygli fólks verður sífellt harðari. Þetta var meðal þess sem velt var upp á ráðstefnunni Alveg sjálfsagt sem haldin var í gær, á alþjóðlegum degi sjálfboðaliða. Meðal frummælenda voru Viðar Halldórsson og Steinunn Hrafnsdóttir, bæði prófessorar á félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Um þrjátíu prósent Íslendinga taka þátt í sjálfboðaliðastarfi af einhverju tagi.

„Þessi tala er algerlega á pari við hin Norðurlöndin. Það hafa verið gerðar samanburðarrannsóknir alveg frá árinu 1990 og það er bara alltaf þannig að Norðurlöndin, þau skora hæst og þá sérstaklega í íþrótta og æskulýðsstarfi. Starfið sem fólk er aðallega að leita í er íþrótta og tómstundastarf og síðan eru það vel velferðafélög, svona góðgerðar og líknarfélög og kannski í þriðja lagi eru ýmiskonar menningarfélög .Það er dæmigerður sjálfboðaliði fyrir hendi. Þetta tengist mjög oft félagslegri stöðu fólks. Það er algengara að sjálfboðaliðar séu langskólagengnir. Þeir eru á ákveðnum aldri, þrjátíu til þrjátíu og níu ára með börn á heimilinu og búa síðan í dreifbýli og eru í góðum félagslegum tengslum. Það ertilhneigingin.“ segir Steinunn.

 

Lífsgæðakapphlaupið, það er endalaust. Er það að taka fram úr ungmennafélagsandanum sem var við lýði um aldir?

„Ég hræðist það svolítið að keppnin er mikil, bæði inni á vellinum og utan hans þar sem við erum alltaf að bera okkur saman við aðra og sjálfsmynd okkar skiptir okkur stórkostlega miklu máli hvernig við lítum út í annarra augum og maður sér það bara neyslu samfélagið,það er gríðarleg neysla í nútíma vestrænum samfélögum sem endurspegla svolítið þetta lífsgæðakapphlaup, þessa neyslu, menningu og maður veltir vöngum yfir því að ef þetta er farið að skipta okkur meira máli hvað gerist með sjálfboðaliðastarfið sem við fáum ekki greitt fyrir fjárhagslega ef hinar áherslurnar trompa þær sko. Við þurfum að geta keypt okkur hluti og allt þetta. Þetta gæti skýrt eitthvað af því að sjálfboðaliðastarf er kannski fer minnkandi eða eitthvað slíkt. Þetta gæti skipt máli já.Þessi samkeppni fólks á milli er mikil um stöðu og virðingu og alls konar hluti. Það gæti haft áhrif.“ segir Viðar Halldórsson

Rætt var við Steinunni og Viðar í Speglinum. Hlusta má á pistilinn í spilaranum.

 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV