Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Banna innflutning sem stuðlar að skógareyðingu

06.12.2022 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þing Evrópusambandsins samþykkti í morgun lög sem banna innflutning á vörum sem taldar eru drífa áfram skógareyðingu í heiminum. Meðal afurða sem bannað verður að flytja inn af slíkum svæðum eru kaffi, kakó og sojabaunir.

Með lögunum verður tryggt að þær vörur sem koma inn á Evrópumarkað stuðli ekki lengur að skógarhöggi og skógareyðingu, hvorki innan sambandsríkjanna eða annars staðar í heiminum, segir í fréttatilkynningu sambandsins eftir að lögin voru samþykkt.

Þegar lögin taka gildi verða viðeigandi fyrirtæki að gangast undir strangt eftirlit áður en þær flytja vörur inn á Evrópumarkað. Þannig verða fyrirtækin að sýna fram á að vörurnar séu ekki af svæðum þar sem skógum hefur verið eytt, auk þess að þurfa að sanna nákvæma hnattstöðu ræktarlandsins.

Eftir að Evrópusambandið hefur tekið lögin í gildi fá fyrirtæki 18 mánuði til þess að aðlagast nýjum reglum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV