Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

FH heldur sigurgöngu sinni áfram í Olísdeild karla

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

FH heldur sigurgöngu sinni áfram í Olísdeild karla

05.12.2022 - 22:22
Í kvöld fóru fram tveir leikir í elleftu umferð Olísdeildar karla í handbolta er ÍR tók á móti Fram í Skógarselinu og Fram fór í heimsókn á Selfoss. Fram sigraði í Skógarselinu 27-31 og FH gerði góða ferð á Selfoss þar sem þeir sigruðu 32-37.

Selfoss 32 - 37 FH

Það voru Selfyssingar sem byrjuðu leikinn betur en þeir komust í fjögur mörk á móti engu en fjórða mark þeirra skoraði Elvar Elí Hallgrímsson á fjórðu mínútu. Það tók FH fimm mínútur að setja fyrsta markið í þennan leik og kom það eftir vítakast sem Einar Bragi Aðalsteinsson fiskaði. Ásbjörn Friðriksson skoraði fyrsta mark FH-inga úr vítaskotinu og þar með var ísinn brotinn. Ásbjörn Friðriksson skoraði síðan jöfnunarmark FH í fyrri hálfleik í stöðunni 9-9 þegar 17. mínútur voru liðnar af leiknum og hann kom svo FH yfir stuttu seinna í fyrsta sinn í þessum leik. Leikurinn var mjög jafn og skemmtilegur eftir þetta en FH var einu marki yfir í hálfleik 17-18 en jú það var Ásbjörn nokkur Friðriksson sem skoraði síðasta mark þeirra í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var spennandi en FH komst þremur mörkum yfir 20-23 eftir mark eftir hraðupphlaup er Jakob Martin Ásgeirsson átti. Selfoss nær að jafna leikinn í stöðunni 26-26 þegar Guðmundur Hólmar Helgason skoraði á 43. mínútu. Selfoss komst ekki aftur yfir í þessum leik þrátt fyrir góða baráttu, náðu að jafna leikinn tvisvar en vantaði herslumuninn að komast skrefi yfir FH í þessum leik. FH vann með fimm marka mun 32-37 en það var Birgir Már Birgisson sem skoraði lokamark FH á lokasekúndum hans úr hraðupphlaupi.

Markahæstir í liði heimamanna voru þeir Einar Sverrisson með tíu mörk og Guðmundur Hólmar Helgason með átta mörk. Markahæstir í liði gestanna voru þeir Einar Bragi Aðalsteinsson og Ásbjörn Friðriksson með átta mörk hvor.

FH er í öðru sæti deildarinnar eftir leikinn með átján stig. fjórum stigum á eftir toppliði Vals. Selfyssingar eru í áttunda sæti með ellefu stig.

ÍR 27 - 31 Fram 

ÍR hafa verið sterkir á heimavelli í vetur og alveg klárlega að nýja húsið í Skógarselinu fer vel í mannskapinn. Fram hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum áður en að leik kvöldsins kom. ÍR er þrátt fyrir góða spilamennsku í leikjum deildarinnar það sem af er í næst neðsta sæti með fimm stig en Fram var í sjötta sæti með þrettán stig stig.

Það tók ÍR-inga sjö mínútur að skora sitt fyrsta mark en á meðan skoruðu gestirnir sex mörk. Fyrsta mark ÍR í leiknum skoraði Viktor Sigurðsson en sjöunda mark Fram kom stuttu eftir það þegar Luka Vukicevic skoraði úr hraðupphlaupi. Fram lék við hvern sinn fingur hér í fyrri hálfleik en þeir skoruðu ellefu mörk á móti einu marki ÍR en heimamenn skoruðu sitt annað mark á tólftu mínútu er Úlfur Kjartansson skoraði. Á þessum tímapunkti var bara eins og ÍR-ingar segðu bara hingað og ekki lengra því þeir skoruðu á næstu þrettán mínútum þrettán mörk og komust yfir 14-13. Þvílíkur leikur ÍR á þessum mínútum en fyrri hálfleikur endaði 15-16 fyrir gestina.

Varnarleikur beggja liða var sterkur í byrjun seinni hálfleiks því það tók þrjár mínútur fyrir ÍR að brjóta ísinn og skora sitt sextánda mark er Hrannar Ingi Jóhannsson skoraði og jafnaði leikinn í 16-16. Eftir þetta varð leikurinn afar jafn og spennandi en þegar fór að síga að lokum hans þá tók Fram af skarið og var leiðandi með tveimur til þremur mörkum en það var svo Marko Coric sem skoraði lokamark Fram í þessum leik. Fram sigraði 27-31 og er komið í fjórða sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir þrettán leiki.

Markahæstir í leiði ÍR í kvöld voru þei rHrannar Ingi Jóhannsson með sjö mörk og Dagur Sverrir Kristjánsson með sex mörk ásamt Viktori Sigurðssyni. Hjá gestunum voru þeir Reynir Þór Stefánsson með sín átta mörk og Luka Vukicevic með sín sjö mörk sem voru markahæstir.