Kórónan er frá 17. öld, býsna þung, gerð úr gulli og alsett eðalsteinum, með purpurablárri flauelskrónu og bryddingu úr hreysikattarskinni. Hún og önnur djásn til sýnis í kastalanum laða að sér yfir milljón ferðamenn árlega.
Kórónan var gerð fyrir Karl II Bretakonung árið 1661 og kom í stað kórónu frá miðöldum sem rakin er aftur til daga Játvarðs góða, konungs Englands á elleftu öld.
Þingmenn létu granda þeirri kórónu eftir að Karl I var tekinn af lífi 1649. Arftaki hennar er svo þung að hún er aðeins sett upp við krýningu þjóðhöfðingja en var þó breytt og gerð léttari fyrir valdatöku Georgs V árið 1911.
Kóróna heilags Játvarðs vegur samt nokkuð á þriðja kíló. Elísabet II bar kórónuna við krýningarathöfna árið 1953 og hún verður sett á höfuð Karls, sonar hennar, við hátíðlega athöfn í Westminster Abbey 6. maí.
Karl mun hafa farið fram á að athöfnin verði mun hófstilltari en þegar móðir hans var krýnd. Mánudagurinn 8. maí verður sérstakur frídagur um gervallt Bretland svo landsmenn geti fagnað nýjum konungi.
Kórónan hvílir aðeins skamma stund á höfði Karls en þegar þau Camilla yfirgefa Westminster Abbey verður mun léttari kóróna, gerð fyrir krýningu Georgs VI föður Elísabetar, á höfði nýja konungsins.
Hefðin er sú að nýr Bretakonungur er krýndur nokkrum mánuðum eftir að hann tekur við völdum. Karl varð konungur þegar Elísabet lést í september auk þess sem hann varð þjóðhöfðingi fjórtán ríkja Samveldisins.