Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kórónu breytt til aðlögunar að höfði Karls III

04.12.2022 - 01:52
Prince Charles, right, addresses the crowd as he appears on stage with Camilla, Duchess of Cornwall, during the Platinum Jubilee concert taking place in front of Buckingham Palace, London, Saturday June 4, 2022, on the third of four days of celebrations to mark the Platinum Jubilee. The events over a long holiday weekend in the U.K. are meant to celebrate Queen Elizabeth II's 70 years of service. (AP Photo/Alberto Pezzali, Pool)
 Mynd: AP - RÚV
Kóróna heilags Játvarðs, helsta krúnudjásn breska konungdæmisins, er ekki lengur til sýnis í Lundúnakastala. Ástæðan er sú að gera þarf nokkrar breytingar á henni fyrir krýningu Karls III í maí.

Kórónan er frá 17. öld, býsna þung, gerð úr gulli og alsett eðalsteinum, með purpurablárri flauelskrónu og bryddingu úr hreysikattarskinni. Hún og önnur djásn til sýnis í kastalanum laða að sér yfir milljón ferðamenn árlega.

Kórónan var gerð fyrir Karl II Bretakonung árið 1661 og kom í stað kórónu frá miðöldum sem rakin er aftur til daga Játvarðs góða, konungs Englands á elleftu öld. 

Þingmenn létu granda þeirri kórónu eftir að Karl I var tekinn af lífi 1649. Arftaki hennar er svo þung að hún er aðeins sett upp við krýningu þjóðhöfðingja en var þó breytt og gerð léttari fyrir valdatöku Georgs V árið 1911.

Kóróna heilags Játvarðs vegur samt nokkuð á þriðja kíló. Elísabet II bar kórónuna við krýningarathöfna árið 1953 og hún verður sett á höfuð Karls, sonar hennar, við hátíðlega athöfn í Westminster Abbey 6. maí.

Karl mun hafa farið fram á að athöfnin verði mun hófstilltari en þegar móðir hans var krýnd. Mánudagurinn 8. maí verður sérstakur frídagur um gervallt Bretland svo landsmenn geti fagnað nýjum konungi.

Kórónan hvílir aðeins skamma stund á höfði Karls en þegar þau Camilla yfirgefa Westminster Abbey verður mun léttari kóróna, gerð fyrir krýningu Georgs VI föður Elísabetar, á höfði nýja konungsins. 

Hefðin er sú að nýr Bretakonungur er krýndur nokkrum mánuðum eftir að hann tekur við völdum. Karl varð konungur þegar Elísabet lést í september auk þess sem hann varð þjóðhöfðingi fjórtán ríkja Samveldisins.