Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sagðist útskúfuð úr samfélaginu eftir dóm fyrir áreitni

02.12.2022 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur staðfesti í dag tveggja mánaða skilorðsbundin dóm yfir konu á sextugsaldri fyrir að áreita aðra konu kynferðislega á hótelherbergi í Reykjavík fyrir þremur árum. Hún sagði fyrir Landsrétti að málið hefði fengið mikið á sig og að hún væri útskúfuð úr samfélaginu í sinni heimabyggð.

Í dómi Héraðsdóms Vesturlands kom fram að konan hefði verið stödd ásamt sex öðrum konum á hóteli í Reykjavík í apríl 2019.

Þær fóru saman út að borða í miðborginni þar sem áfengi var haft um hönd  en eftir að borðhaldi lauk fór hluti hópsins á fleiri veitingastaði. Hann sneri aftur á hótelið um miðnætti og hélt áfram samverunni á einu hótelherbergi. Þar kastaðist í kekki milli konunnar og annarrar konu, brotaþolans í málinu. Það  varð til þess að hópurinn tók á sig náðir, hver í sínu herbergi. 

Í dómi héraðsdóms kom fram að konan hafi í framhaldinu farið inn herbergi til brotaþolans. Þær ræddu saman og lögðust svo til hvílu í tveimur samliggjandi rúmum. Brotaþolinn sagðist hafa vaknað við það síðar um nóttina að konan var á leita á hana kynferðislega með snertingum og orðum.

Konan neitaði því alfarið að þetta hefði gerst. Hún sagði í viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti að málið hefði haft mikil áhrif á hana. Hún væri útskúfuð úr samfélaginu í sinni heimabyggð.

Landsréttur telur að konunni hafi mátt vera ljóst að í háttsemi hennar fælist kynferðisleg áreitni. Ekki væri heldur hægt að líta fram hjá því að ummæli hennar hafi verið látin falla í tengslum við ósamþykkta og óvelkomna snertingu af kynferðislegum toga. 

Staðfesti Landsréttur því tveggja mánaða skilorðsbundin dóm en lækkaði miskabætur úr 450 þúsund krónum í 350 þúsund krónur. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV