Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hægðir úr dönskum aðli til sýnis í Álaborg

02.12.2022 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Frederik Bernhard Gatzwiller - DR
Gestir minjasafnsins í Álaborg í Danmörku geta frá og með morgundeginum barið yfir 300 ára gamlar hægðir augum. Hægðirnar fundust í náðhúsi biskupsstofunnar í Álaborg þegar hún var rifin niður árið 1937.

Hægðirnar sjálfar eru frá 17. öld. Hægðirnar vöktu athygli vísindamanna þegar þær voru skoðaðar fyrir nokkrum árum síðan. Sá sem skilaði þeim af sér hafði meðal annars gætt sér á gæðamatvælum á borð við piparkorn, fíkjur og vínber. Því telja safnstjórar að hægðirnar séu að öllum líkindum úr aðals-þörmum, jafnvel úr biskupnum sjálfum. 

Hægðirnar eru liður í sýningu á munum frá endurreisnartímanum. Þar verða munir bæði frá æðri og lægri stéttum þess samfélags, fagurskreyttur barnakistill, brúðarskrín, allsgnægtarborð forríkra endurreisnarmanna, auk beinagrindar fátækrar konu, sem sýnir hversu erfitt lífið var fyrir flesta á þessum tíma.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV