Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekkert haldbært um að Carmen hafi viljað Jóni illt

02.12.2022 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsréttur dæmdi í dag Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að áreita Carmen Jóhannsdóttur á heimili sínu á Spáni fyrir fjórum árum. Dómurinn telur ekkert hafa komið fram sem bendir til þess að Carmen eða móðir hennar hafi borið þungan hug til Jóns Baldvins eða viljað honum illt.

Jón Baldvin hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Hann sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tveimur árum að ákæran væri útspil í skipulagðri aðför að mannorði hans. „Veislan á þakinu var sviðsett. Hún er ósönn,“ sagði Jón Baldvin í Silfrinu á sínum tíma.

Landsréttur segir í dómi sínum að þegar litið sé á framburð Jóns Baldvins, Carmenar og annarra vitna megi sjá að ekkert þeirra var fyllilega stöðugt í frásögn sinni af atvikum áður en móðir Carmenar sakaði Jón Baldvin um að hafa áreitt dóttur sína.   Engin ástæða sé þó til að draga sérstakar ályktanir varðandi það. Þetta hafi verið hversdagslegir hlutir sem allur gangur sé á hvort fólk veiti athygli og festi sér í minni.

Hins vegar liggi fyrir að Carmen og móðir hennar hafi frá upphafi verið staðfastar í framburði sínum um að Jón Baldvin hafi strokið upp og niður rass hennar. Carmen hafi ekkert þekkt Jón Baldvin fyrir heldur verið gestur á heimili hans og Bryndísar Schram þar sem mamma hennar hafi verið vinur þeirra hjóna frá fyrri tíð. Þá bendir Landsréttur á að ekki verði séð að nokkuð haldbært hafi komið fram sem bendi til þess að Carmen eða móðir hennar hafi borið þungan hug til Jóns Baldvins eða viljað honum illt.

Landsréttur telur það ekki draga úr trúverðugleika á framburði Carmenar að hún hafi ekki kært málið fyrr en í febrúar 2019.  Þá dragi það heldur ekki úr sönnunargildi á framburði hennar að hún hafi ekki með vissu getað sagt hversu oft Jón Baldvin strauk henni.

Landsréttur segir ákæruvaldinu því hafa tekist, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, að Jón Baldvin hafi áreitt Carmen kynferðislega. Fram kemur í dómi Landsréttar að Jón Baldvin hafi í febrúar fyrir þremur árum gengist undir sektargerð vegna brota á sérrefsilögum.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að sótt yrði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Þegar sýknu í héraðsdómi er snúið í sakfellingu í Landsrétti hefur reglan verið sú að Hæstiréttur veitir slíkt leyfi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV