Kateryna var nýkomin til Ítalíu á tónleikaferð, þegar Rússar réðust inn í heimaland hennar, 24. febrúar í vor. „Við vorum nýlent; vorum búin að vera á Ítalíu í nokkra klukkutíma, þegar við fréttum af þessu. Við vorum auðvitað öll að búast við að eitthvað myndi gerast, en ekki sama dag og við áttum að koma fram. Ég man að ég átti erfitt með að standa upprétt meðan á tónleikunum stóð og ég skil eiginlega ekki hvernig ég komst í gegnum dagskrána - þetta var mjög erfitt fyrir mig og félaga mína sem voru með mér.“
Kateryna spilaði áður með kammersveit í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, en síðan innrásin hófst, hefur hún komið fram víða í Evrópu, þar á meðal á Íslandi fyrir um tveimur mánuðum, þar sem hún spilaði með Veru Panitch, öðrum konsertmeistara Sinfóníunnar á tónleikum sem samtökin Artists 4 Ukraine skipulögðu. Úr varð að Katerynu var boðinn tímabundinn samningur hjá Sinfóníunni, sem hún segist vera afar þakklát fyrir.
„En hugur minn er alltaf hjá mínu fólki í Úkraínu og ég finn fyrir sársauka í hvert skipti sem ég les um fólk sem deyr í árásum, nauðganir og pyntingar, því þetta gæti verið ég sjálf. Á sama tíma bý ég í öruggu umhverfi, er með vinnu og húsnæði, þannig að fyrstu mánuðina fann ég fyrir sektarkennd yfir því að hafa það svona gott. En fjölskylda mín sagði mér að það væri betra að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér; það væri gott að ég gæti haldið áfram að spila - sem kannski það sem heldur mér á floti,“ segir Kateryna.