Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margir vildu flugmiða en íslenska bókin varð ofan á

01.12.2022 - 21:21
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Íslenskar lágstemmdar jólahefðir eru í öndvegi í vali á jólagjöf ársins hjá Rannsóknasetri verslunarinnar. Ekkert er minnst á fótanuddtæki eða aðra hluti sem enginn vill lengur kannast við.  Íslenska bókin og íslensk borðspil urðu fyrir valinu. „Í svörum neytenda var flugmiðinn mjög ofarlega. Hann var í topp þremur. Svo það verður eitthvað um tásumyndir af Tenerife áfram,“ segir forstöðukona Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Jólagjöfin í ár er íslenska bókin og íslensk borðspil. Þetta er niðurstaða Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Þríþættri aðferð er beitt við að finna jólagjöf ársins. 

„Við spyrjum neytendur hvað þeir vilja fá í jólagjöf og svo könnum við hvað verslanir eru að selja, hvað eru vinsælar vörur í október- og nóvembersölunni,“ segir Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðukona Rannsóknaseturs verslunarinnar. 

Rýnihópur skoðar þetta og ræðir saman í leit að niðurstöðu.

„Forsendurnar eru að varan seljist vel, hún þarf að vera vinsæl meðal neytenda og hún þarf að falla vel að tíðarandanum,“ segir Sigrún.

Covid og stríð hafi orðið til þess að fólk sæki meira í samveru með sínum nánustu. 

Ódauðlega jólagjöfin árið 1982

En líklega er fótanuddtækið sú jólagjöf sem mun í minningunni lifa lengst með þjóðinni. Sú vinsæla gjöf sló í gegn 1982 og svo aftur 2004.

Jólagjafatillögufjaðrafok 2011

En niðurstaða rýnihóps Rannsóknasetursins árið 2011 olli nokkru fjaðrafoki.

Gylfi Arnbjörnsson, þáverandi forseti Alþýðusambandsins, var afar ósáttur í fréttum RÚV í desember 2011.

„Það að setja fram að jólagjöfin í ár sé spjaldtölva fyrir yfir hundrað þúsund krónur er náttúrulega ekki í samræmi við neinn veruleika sem við Íslendingar að öðru leyti búum við,“ sagði Gylfi. 

Ferðalög ofarlega í huga margra

Í kófinu í fyrra varð jogginggalli fyrir valinu þó svo að annar og öllu harðari pakki hafi fangað hjörtu margra landsmanna - nefnilega loftsteikir eða airfryer. 

Það hefði nú kannski einhver stungið upp á ferðalögum erlendis?

„Það er merkilegt að þú skulir stinga upp á því í svörum neytenda var flugmiðinn mjög ofarlega. Hann var í toppþremur. Svo það verður eitthvað um tásumyndir af Tenerife áfram,“ segir Sigrún.